Leslistinn #100
Taugaskurðlæknar, almenningsgarðar, reipi, stafrófið, bólur, háskólar, Bach, staðnaður poppkúltúr, einhæfir sjónvarpsþættir, rúmenskur barnaskólalæknir
Um Leslistann
Í Leslistanum finnurðu ábendingar um alls kyns skemmtilegt lesefni en sömuleiðis tillögur að hlaðvörpum, tónlist, sjónvarpi og öðru uppbyggilegu og mannbætandi efni. Höfundar listans eru Kári Finnsson og Sverrir Norland.
Ertu með ábendingu handa Leslistanum? Enga feimni, sendu okkur línu!
Hlekkir
Gervigreindin mun auka vægi hugvísinda, að mati höfundar þessarar greinar, en vegurinn þangað verður skrítinn og þyrnum stráður.
Lærdómur af því að eyða 200 klukkustundum í að hlusta á Bach.
Af hverju hefur amerískur poppkúltúr staðnað svona mikið?
Í sama dúr: Af hverju þurfa allir sjónvarpsþættir og allar kvikmyndir að fylgja sama sögustrúktúr?
Hvernig á maður að hafa lifibrauð af því að skrifa? Átakanleg frásögn konu sem reynir að lifa einungis á skrifunum. Hestafréttir á morgnana og erótík eftir hádegi.
(Kári)
Langar þig að stofna háskóla? Það þarf ekki að vera svo flókið. Mjög gaman að lesa um þetta framtak í New York. Þarf heimurinn ekki meira svona?
Hvern langar ekki til að horfa á einnar mínútu myndband af ólíkum almenningsgörðum vítt og breitt um jörðina? Það hefur allavega verið ævilangur draumur hjá mér og reynist vera mjög slakandi dægradvöl.
Auðvitað er kaffi hollt og gott fyrir okkur rétt eins og annað sem lífgar upp á tilveruna. Eða eins og Helga Sigurðardóttir ritar í frægustu matreiðslubók Íslandssögunnar (ég hef þetta eftir henni eftir minni): „Kaffi er hressandi og góður drykkur, einkum ef hans er neytt í hóflegu magni.“
Ég hafði undarlega gaman af því að lesa þessa hugleiðingu um samspilið á milli framfara og tækni - og hvernig við þurfum ekki endilega að skilja það sem við finnum upp og notum. Aldrei lesið jafn ítarlegar spekúlasjónir um reipi.
Þessa dagana rekst maður stöðugt á skrif um gervigreind – lofsöngva, viðvörunarorð, dómsdagsspár – og hér er kastljósinu beint að því hvernig tungumálalíkönin geta flatt út tungumál og hálfvegis „gelt“ þau. Hinir trúuðu telja að gervigreindin geti t.d. „bjargað“ tungumálum í útrýmingarhættu, sem er augljóslega út í hött. Aðeins fólk af holdi og blóði, sem lifir og hrærist í tilteknu tungumáli, getur haldið því á lífi. Því að tungumál er lifandi samspil einstaklinga, ekki líkön eða gögn (þó að slíkt geti líka verið ágætt til síns brúks).
The Dial er einn uppáhalds-vefmiðill minn þessa dagana og birtir skrif blaðamanna og annarra skríbenta úr víðri veröld. Nýlega gerðu þau til dæmis „sérrit“ um Bandaríkin sem vakti mikla athygli.
Ég veit ekki alveg hvað The Hinternet er, nákvæmlega, en ég les það oft. Þar heyrast öðru hverju þær hugmyndir að við séum að segja skilið við „tímabil læsis“ og sigla inn í einhvers konar post-literacy veröld. Ansi ógnvekjandi tilhugsun - en eflaust ákjósanlegt fyrir handhafa tækninnar (t.d. gervigreindar og ríkisvalds) ef markmiðið er að herða enn frekar tök sín á lýðnum og helst má út gagnrýna hugsun, vitsmunalegt þrek og tengsl okkar við og tök á tungumálinu.
Hvað kenndi klám heilli kynslóð kvenna í Bandaríkjunum?
Af hvaða gerð er þín forvitni?
(Sverrir)
Bækur
Sheila Heti tók um það bil hálfa milljón orða úr dagbókum sínum, saxaði efnið niður svo að eftir stóðu 10%, setti allt svo inn í Excel og raðaði málsgreinunum upp í stafrófsröð. Útkoman er Alphabetical Diaries, mjög skemmtileg (og svolítið nærgöngul) bók sem passar vel inn í höfundarverk Heti. (Aðrar sem ég mæli með: Motherhood og How Should a Person Be?) Í fyrsta kafla Stafrófsdagbókarinnar hefjast allar setningar á a, í öðrum kafla á b, í þeim þriðja á c og … Þið fattið þetta? Fólk úr lífi Heti, einkum fyrri kærastar, svífa inn og út úr frásögninni og maður fær ágætis tilfinningu fyrir áskorunum hennar, hugðarefnum og þráhyggjum, auk þess sem þessi frásagnaraðferð er jafnvel nær því hvernig við skynjum lífið í raun; tíminn er ekki lína, miklu frekar spírall eða einhver óskiljanlegur hrærirgrautur. Svona geta skáldin notað töflureikni á skapandi hátt.
(Sverrir)
Ég held að enginn tali um bólur í jákvæðu ljósi. Maður vill helst forðast bólur - kreista þær vandlega ef maður getur. Efnahagurinn má varla við bólumyndun vegna þess að skellurinn eftir að bólurnar springa getur haft svo slæmar afleiðingar. En hvað ef allt sem þú hefur heyrt um bólur er rangt? Hvað ef bólur eru lykillinn að framför mannkyns? Það vilja höfundar bókarinnar Boom: Bubblers and the End of Stagnation meina. Ég hef lengi lesið fréttabréf annars þeirra, Byrne Hobart, og hvet alla sem hafa áhuga á bæði fjármálum og tækni að gera slíkt hið sama. Bókin fjallar um hvernig bólur eru drifkraftar framfara í heiminum; ef við viljum ná að klóra okkur upp úr tæknilegri og efnahagslegri stöðnun, þá þurfum við á bólum að halda.
Máli sínu til stuðnings segja höfundarnir frá mörgum helstu framfaraskrefum hins vestræna heims að þeirra mati, til dæmis og Appolo-verkefninu, gullöld rannsóknar og þróunar hjá fyrirtækjum eins og AT&T og Xerox, þróun örflaga, Bitcoin og vökvabroti (e. fracking) við olíuleit. Allt eru það dæmi um bólur að þeirra mati þar sem um er að ræða stórhuga verkefni þar sem mikið fjármagn, hugvit og áhættusækni safnast saman og stuðla að framförum. Þeir taka þó einnig fram að bólur geta líka haft eyðileggingarmátt undir vissum kringumstæðum, þegar þær eru t.d. skuldadrifnar og miða aðeins að því að viðhalda núverandi ástandi (húsnæðisverð mun halda áfram að hækka).
Það sem kannski situr helst eftir að loknum lestri er framfarahugsunin og metnaðurinn í bókinni, sem er beinlínis smitandi. Þetta er fersk nálgun á hagsögu og tæknisögu heimsins sem fékk mig til að sjá hlutina í nýju ljósi.
Þessi bók ætti alls ekki að vera góð. Sjálfsævisaga rúmensks barnaskólakennara sem er líka misheppnaður rithöfundur, vinafár og berdreyminn er ekki beint káputexti sem segir sex. En það er eitthvað við Solenoid eftir rúmenska rithöfundinn Mircea Cărtărescu sem heldur athygli manns yfir mörghundruð síður, eitthvað órætt og dulrænt sem er bæði raunsætt og draumkennt á sama tíma. Bókin er skrifuð eins og óreiðukenndar dagbókarfærslur en nær samt að halda einhverjum þræði og svo eru ýmsar setningar þarna sem maður gæti allt eins rammað inn. Það er í hið minnsta langt síðan ég hef fundið bók sem hreyfði við mér með jafn skrítnum hætti og þessi.
(Kári)
Í eyrunum
Interesting Times með Ross Douthat er mjög fínt nýtt hlaðvarp úr ranni The New York Times. Hér talar Douthat við Alice Evans um vandamál sem Snorri Másson hefur reynt að koma inn í umræðuna hér heima - nefnilega lækkandi fæðingartíðni í heiminum. Er þetta raunverulegt vandamál? Douthat er allavega á því að svo sé. Meðalaldur fólks hækkar hratt og hverjir eiga að bera uppi velferðarkerfið í framtíðinni og halda samfélagsstoðunum við? Og er gjáin milli karla og kvenna sífellt að breikka, þökk sé ólíkum bergmálshellum internetsins?
(Sverrir)
Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér hvernig taugaskurðlæknar starfa? Ekki ég heldur, en það kemur í ljós að starf þeirra er mjög áhugavert. Hér er mjög gott og djúpt viðtal við taugaskurðlækni.
(Kári)