Leslistinn #89
Ringlaðir karlmenn, listræn gervigreind, uppruni mannsins og rómantískir gamanleikir
Leslistinn er fréttabréf sem tekið er saman að Kára Finnssyni og Sverri Norland. Hér finnurðu hlekki á áhugavert efni á netinu, ábendingar um góðar bækur og hlaðvörp og sitthvað fleira bitastætt.
Í hjáverkum reka Kári og Sverrir einnig spæjarastofuna The Reykjavík Detective Agency. Hafðu samband ef þú týndir maka eða ketti.
Hlekkir
Frábær hugleiðing um af hverju gervigreindinni mun aldrei takast að gera list.
Ég hélt að ég hefði verið býsna duglegur síðastliðin fimm ár, þar til ég las þetta.
Merkilegt samband á milli vefnaðarlista Najavo fólksins og örflöguhönnunar.
Eitt sem hefur alltaf farið í taugarnar á mér er þegar fólk gerir lítið úr góðum smekk. Smekkur manna er vissulega misjafn en það er til eitthvað sem heitir góður smekkur og það skiptir máli að rækta með sér góðan smekk í því sem maður tekur sér fyrir hendur. Tvær greinar sem ég held mikið upp á fjalla um nákvæmlega þetta. Sú fyrri, eftir Paul Graham, tekur fyrir spurninguna um hvort til sé eitthvað sem hægt er að kalla góðan smekk. Seinni greinin, eftir Brie Wolfson, er samansafn góðra punkta um einmitt þetta viðfangsefni.
Er bóksala listform? Áhugaverð rýni á bók sem heldur því fram að bóksala sé eins og listgrein frá manni sem hefur starfað lengi sem bóksali og vill meina að það sé eins og hvert annað starf. Í sama dúr er hér ágæt grein um stöðu bókabransans. Því var haldið fram fyrir ekki svo löngu að af öllum bókum sem gefnar eru út seljist helmingur ekki í nema tíu eintökum. Í greininni kemur fram að þessi tölfræði sé mjög villandi og að þótt salan sé vissulega að dragast saman þá sé staðan alls ekki svona í raun og veru. Hér er líka nýleg tölfræði frá bandaríska rithöfundasambandinu sem sýnir að miðgildi tekna rithöfunda af bóksölu væri ósköp lágt og í raun ekki nóg til að afla lífsviðurværis í flestum tilfellum. Þessu til viðbótar er ágæt grein hér um framtíð bóksölu.
En svo eru auðvitað flestir sem lesa ekki bækur alveg til enda, en ættu að gera það. Undarlega mikið samkeppnisforskot sem fólgið er í því að vera raunverulega búinn að lesa sér til um hlutina.
(KF.)
Listi The Atlantic yfir bestu bandarísku skáldsögurnar.
Eftir að hafa lesið þetta langaði mig ekki að borða neitt nema tófú í ár!
Á ensku er oft svo skemmtilegt hvernig hópur dýra er lýst – „a parliament of owls”, „a murder of crows“. Hér er farið yfir þetta. Frábærar myndskreytingar.
Lesskilningur framhaldsskólanema hefur, að sögn þessa bandaríska prófessors, hrunið á allra síðustu árum. Hvað veldur?
Unglingsstelpur eru duglegastar í að búa til nýyrði og ný orðasambönd.
Flest tungumál heims hverfa fyrir 2100.
Um daginn sagði vinkona mín: „Ég bara skil ekki hvernig flugvélar virka!“ Hér er það útskýrt, í máli og myndum, á ótrúlega skýran og nákvæman hátt.
(SN.)
Bækur
Ég las á einni beit nýjustu bók fyrrum kennara míns og vinar, Rúnars Helga Vignissonar, sem ber þann ágæta titil Þú ringlaði karlmaður. Rúnar Helgi skrifar á einlægan og fræðandi hátt um stöðu karlmanna í samtímanum og sækir óspart í eigin reynslu. Bók sem er mér einmitt að skapi: nonfiksjón sem segir persónulega sögu höfundar en fléttar alls kyns heimildir og fróðleik saman við frásögnina. Stundum er maður ekki 100% sammála höfundi en það er hið besta mál; að lesa er samtal. Hér er Rúnar Helgi í viðtali um bókina við Björn Þorláksson á Samstöðinni.
Ég hafði sömuleiðis gaman af Romantic Comedy eftir Curtis Sittenfield, skáldsögu sem fjallar um konu í New York sem vinnur við að skrifa sketsaþátt í anda Saturday Night Life og verður ástfanginn af þekktri bandarískri poppstjörnu, karlmanni sem er glæsilegur, ríkur og eiginlega „í annarri deild“ en hún. Bókin í heild snýr upp á þá hugmynd að sjabbý, taugaveiklaðir karlmenn deiti oft glæsilegar, framúrskarandi fegurðardísir en að það sama gerist aldrei líka á hinn veginn: að sjabbý, taugaveiklaðar konur séu með glæsilegum, framúrskarandi karlmönnum.
(SN.)
A Man for All Markets - Edward Thorpe
Ég hef lengi haft gaman af ævisögum frumkvöðla sem ögra viðteknum venjum, gera eitthvað öðruvísi og hagnast svo af frumkvöðlastarfsemi sinni. Þegar ég samt klára að lesa þessar bækur kemst ég yfirleitt að sömu niðurstöðu: þrátt fyrir alla peningana og frægðina sem þeir öfluðu sér þá myndi ég aldrei vilja skipta mínu lífi út fyrir þeirra. Enda eru þessir frumkvöðlar oft og tíðum mislyndir sérvitringar sem kasta frá sér fjölskyldu og vinum. Ed Thorpe er sennilega undantekningin sem sannar regluna. Hann er bandarískur stærðfræðingur sem varð fyrst frægur fyrir að finna leiðir til að reikna sig áfram til gróða í fjárhættuspilum og nýtti síðan sömu aðferðafræði til að græða á tá og fingri á verðbréfamörkuðum. Þessum árangri náði hann samhliða því að eiga hamingjuríkt fjölskyldulíf auk þess að tryggja að halda heilsunni í lagi. Maðurinn er 92 ára og lítur út fyrir að vera jafnaldri minn! Mæli með þessari, sérstaklega ef maður hefur gaman af stærðfræðigrúski og fjármálum.
Thunderclap - Laura Cumming
Talandi um nonfiksjón með blöndu af persónulegri sögu höfundar og sögulegum fróðleik. Keypti nýlega bókina Thunderclap eftir listgagnrýnandann Lauru Cumming vegna þess að hún virtist fjalla á yfirborðinu um það tímabil listasögunnar sem ég hef hvað mestan áhuga á, hollensku gullöldinni á 17. öld. Bókin fjallar í grunninn um hollenska málarann Carel Fabritius sem er þekktastur fyrir neðangreint málverk af þistilfinku (e. goldfinch) og var einmitt til umfjöllunar í bókinni Goldfinch eftir Donnu Tartt sem naut mikilla vinsælda.
Í raun er bókin mun áhugaverðari en svo vegna þess að höfundurinn þræðir inn í bókina eigin ævi sem dóttir myndlistarmanns og sem aðdaánda hollenskrar myndlistar við sögu Fabritius sem lét lífið sviplega í sprengingu sem varð í Delft í Hollandi árið 1654. Það mætti klárlega skrifa fleiri svona bækur. Þ.e. af sama sniði, ég held að það sé nóg að hafa eina sem fjallar um nákvæmlega þetta.
(KF.)
Hlaðvörp
Mér finnst fátt skemmtilegra en löng, djúp og forvitnilegar samræður um hluti sem ég hef ekki hundsvit á. Hér er gott dæmi um slíkt þar sem erfðafræðingurinn David Reich ræðir við hlaðvarpsstjórnandann Dwarkesh Patel um uppruna mannsins í mjög víðu samhengi.
Mjög gott samtal við tónlistarsagnfræðinginn Ted Gioa um tónlist og listina við að skrifa.
(KF.)
Frábært, var farinn að sakna leslistans :)
P.S. Væri nú ekki leiðinlegt að taka einhverntímann kaffibolla með ykkur félögum.