Leslistinn #90
Listfengar forynjur, mikil sköpunargleði, Prince, áskoranir á norðurslóðum og margt fleira
Leslistinn er fréttabréf sem tekið er saman að Kára Finnssyni og Sverri Norland. Hér finnurðu hlekki á áhugavert efni á netinu, ábendingar um góðar bækur og hlaðvörp og sitthvað fleira bitastætt.
Útgáfa
Við höfum verið í hléi frá Leslistanum en ekki setið aðgerðarlausir með hendur í skauti. Á síðasta ári komu til að mynda bækur frá okkur báðum.
Sverrir gaf út skáldsöguna Kletturinn og splæsti meira að segja líka í smáskífu (og myndband!) sem var innspíreruð af bókinni. (Hér á Spotify.)
Kári gaf út þýðingu sína á sígildri bók Peter Drucker, Effective Executive, og heitir hún á íslensku Árangursríki stjórnandinn.
Hlekkir
Virkar róttækur aktívisimi í loftslagsmálum? Grein á hinu stórfína veftímariti The Dial (sem ég mæli með).
Talandi um loftslagsmál: Þetta er taugatrekkjandi lesning. Heimildin fjallar um mögulega kólnun á Íslandi (og Norðurlöndunum) á næstu áratugum.
Í því samhengi er svo hér önnur grein í Le Monde diplomatique (fyrir þá sem lesa frönsku) sem fjallar á áhugaverðan hátt um þau áhrif sem Úkraínustríðið hefur haft á norðurslóðir. Ýmsar áskoranir fram undan.
Eigum við að hætta að lesa Alice Munro, horfa á Woody Allen, hlusta á Micheal Jackson? Hér er áhugaverð hugleiðing um þá fyrstnefndu, hina margverðlaunuðu Alice Munro, kanadíska smásagnahöfundinn sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2013. Í kjölfar andláts hennar hefur orðsporið beðið hnekki (og það ekki að ósekju). En skiptir það máli hvernig höfundurinn hegðaði sér í einkalífinu ef bókmenntaverkin eru góð? Getur verið að kveikjurnar að góðri listsköpun felist einmitt oft í áföllum höfundanna eða misjafnri hegðun þeirra, eins deprímerandi og það kann að hljóma? Þessu þarf einhver gáfaðri en ég að svara en í greininni er sannarlega ekkert verið að skafa utan af hlutunum: „If books are to be trashed because of the lives of their authors, there won’t be a library left standing.“
Fékk ábendingu um þessa áhugaverðu umfjöllun um bandaríska trúflokkinn the Shakers. Nú eru bara tveir þeirra eftir!
Í þessari grein í The New Yorker heldur vísindaskáldskaparhöfundurinn Ted Chiang því fram að gervigreindin muni aldrei geta búið til list. (Kári hlekkjaði á þessa grein í síðustu viku.) Vaskur höfundur í The Atlantic (af holdi og blóði!) var skjótur til svara og segir á móti: Tja, vertu nú ekki svo viss!
Uppáhaldsgreinin mín nú í vikunni fjallaði um óútgefna níu klukkustunda heimildarmynd Ezra Edelman um tónlistarmanninn Prince. Frábær skrif - og vá hvað mig langar að sjá myndina!
Þegar ég las þetta pistilkorn Lauru Marsh um verk rithöfundarins Joseph O’Neill - sem ég hef aldrei lesið en hef nú skellt á leslistann - hugsaði ég enn og aftur um hversu mikilvægt það er að fjallað sé um hvers kyns list, og ekki síst bókmenntir, á fjörlegan og skapandi hátt af skarpskyggnu og skemmtilegu fólki, til að vekja áhuga almennings og halda vitsmunalegri umræðu í samfélaginu á lífi. Hér á Íslandi vantar okkur svo sárlega meiri umfjöllun um menningu og listir en sömuleiðis bara dýpri skrif um allt milli himins og jarðar: hagfræði, sálfræði, loftslagið, náttúruna, íþróttir, vináttuna, ástina. Leiðin að hamingjunni er vörðuð andlegum og líkamlegum þroska okkar – nota líkamann, nota hausinn. Ást, hamingja, listir. Skoða, skapa, elska.
Villi Netó með fína hugleiðingu.
(SN.)
Rithöfundurinn JG Ballard skrifar um uppáhalds bækurnar sínar. Góð pæling frá honum um hvenær maður er á réttum aldri til að lesa klassísk bókmenntaverk.
Hér er líka nýleg grein um sama höfund eftir uppáhalds núlifandi heimspekinginn minn, John Gray.
Hvernig geta glötuð fornrit breytt skilningi okkar á sögunni? Verður merkilegt að fylgjast með því hvernig gervigreindin og önnur tækniþróun getur dregið fleiri fornrit fram í dagsljósið.
(KF.)
Bækur
Herbergi Giovanni
Þegar ég bjó úti í New York voru verk James Baldwin að fara aftur á flug eftir að hafa legið í láginni um árabil, eða frá dauða höfundarins árið 1987. Ég held það hafi m.a. verið í kjölfar Black Lives Matter-hreyfingarinnar sem varð til árið 2013, allavega hófu bækurnar að birtast í nýjum útgáfum í bókabúðum og svo kom út sláandi sterk mynd, I Am Not Your Negro (2016), sem hreyfði mikið við mér. Ég las líka t.d. þriðju skáldsöguna hans og eina þá stærstu, Another Country, og það er reynsla sem ég gleymi aldrei. Hún hitti mig einhvern veginn alveg á réttum tíma, á svipaðan hátt og Days of Abandonment gerði nokkrum árum fyrr þegar Elena Ferrante var að byrja að koma út á ensku - tilfinningarnar voru svo sterkar, rytminn í textanum eitthvað svo ágengur – jafnvel heiftúðugur – og mælska og greind höfundarins svo mögnuð og áreynslulaus. Aftur og aftur afhjúpar hann hræsnina sem er innbyggð í bandarískt samfélag, kúgunina, rasismann, og það á svo tæran og sannfærandi hátt að mér fannst að hann hlyti að vera einn mesti höfundur bandarísku þjóðarinnar á 20. öld. Kannski var hann það. Hann hefði mátt fá Nóbelsverðlaun og margt fleira. (En ekki er víst að símanúmer svartra, samkynhneigðra höfunda hafi verið mörg í símaskrá þeirra í Stokkhólmi á þeim tíma.)
Hvað um það, nú hefur Þorvaldur Kristinsson þýtt aðra skáldsögu Baldwin, Herbergi Giovanni, og það líka svona listavel (og sömuleiðis ritað stórfínan eftirmála). Gaman að fá þennan gamla vin á íslensku og til fyrirmyndar að Forlagið útgáfa gefi út. Vona að sem flestir kynnist þessum góða höfundi.
Quentin Tarantino - Cinema Speculation
Quentin Tarantino er einn af mínum eftirlætis leikstjórum og þess vegna fannst mér sérstaklega ánægjulegt að sjá að hann gaf nýverið út ritgerðasafn um kvikmyndir. Bókin er bæði persónuleg og dásamlega nördaleg. Það skín alveg í gegn hvað maðurinn elskar kvikmyndir en það er líka áberandi í fjölmörgum tilvísunum í kvikmyndunum hans. Bókin byrjar á eins konar sjálfsævisögu sem hann segir í gegnum ást sína á kvikmyndum, þá sérstaklega myndum frá áttunda áratugnum. Það er greinilegt að þetta voru mikil mótunarár hjá honum vegna þess að hann þekkir myndirnar af svo mikilli dýpt. Ekki spillir fyrir að hann vann greinilega mikla heimildarvinnu fyrir ritgerðirnar sem fól m.a. í sér viðtöl við gamla meistara innan kvikmyndageirans. Skemmtilegasta ritgerðin að mínu mati var hugleiðing hans um hvernig kvikmyndin Taxi Driver hefði verið ef Brian De Palma hefði leikstýrt myndinni í stað Scorcese, sem var víst möguleiki á sínum tíma. Nördalegra gæti það varla verið!
Slow Productivity - Cal Newport
Ég hugsa vandræðalega mikið um hvernig maður á að vinna betur og ná meiri árangri í starfi. Svo mikið að ég gekk svo langt að þýða klassíska bók um hvernig maður á að vera árangursríkur í starfi. Þess vegna sæki ég í slíkt lesefni og í langflestum tilfellum eru þannig bækur tímasóun. Bækur Cal Newport eru undantekningin sem sannar regluna. Nýjasta bók hans, Slow Productivity, fjallar um hvernig hægt er að ná raunverulegum árangri í vinnu frekar en að þykjast ná árangri. Hann vísar einmitt í Árangursríka stjórnandann eftir Peter Drucker sem mikilvægt viðmið í slíkri vinnu en bætir því við að í hraða nútímans eru sífellt meiri kröfur á að ná sýnilegum árangri, frekar en að ná raunverulegum árangri í vinnu. Líkan hans, sem má þýða illa sem hæg framleiðni (e. Slow Productivity), snýr að því að gera færri hluti, gera þá hægar og einblína á gæði frekar en magn. Hljómar vissulega einfalt og jafnvel augljóst en bókin er vel lestursins virði og afhjúpar hversu oft maður fellur í þær freistingar að eyða tíma í vitleysu.
(KF.)
Hlaðvörp
Ljóðskáldið Anne Carson í frábæru viðtali við norska rithöfundinn Linn Ullmann. Viðtalið er tekið í Louisiana safninu í Kaupmannahöfn sem heldur úti áhugaverðri röð viðtala sem ég mæli mikið með.
Merkilega gagnleg ráð um hvernig á að skrifa grípandi texta. Djúp yfirferð og skemmtileg. Mæli með þessu hlaðvarpi, How I Write, fyrir þá sem hafa áhuga á því að skrifa og að verða betri í að skrifa.
(KF.)