Leslistinn #91
Skynsamlegar ákvarðanir, dónalegir njósnarar, ólæsir nemendur, grænkerar og hnífsárásir ...
Leslistinn er fréttabréf sem tekið er saman að Kára Finnssyni og Sverri Norland. Hér finnurðu hlekki á áhugavert efni á netinu, ábendingar um góðar bækur og hlaðvörp og sitthvað fleira bitastætt.
Hlekkir
Af hverju maður á ekki að skrifa bók.
Erum við of óþolinmóð til að taka skynsamlegar ákvarðanir? Frábær og fyndin hugleiðing frá Rory Sutherland um hvernig ólíkt tímaskyn hefur áhrif á verðmætamat okkar.
Hvernig á að lesa þýðingar á Hómerskviðum. Ýmislegt þarna sem ég hefði viljað vitað en þorði hvorki né hafði vit á að spyrja um.
Djúp og góð umfjöllun um nýlega ævisögu Stanley Kubrick. Er í raun snjöll rýni á öllum kvikmyndunum hans, sem eru nær allar stórkostlegar.
Önnur eins umfjöllun um nýlega ævisögu Leonard Cohen. Ég vissi ekki að hann hefði verið rithöfundur áður en hann varð söngvari og áttaði mig heldur ekki á því að hann var af sömu kynslóð og Elvis Presley.
Forvitnilegt að lesa þessa handbók sem YouTube stjarnan Mr. Beast (spyrjið börnin ykkar) gefur starfsmönnum sínum. Hvern hefði grunað að svona mikil vinna færi í þessa vitleysu sem krakkar eru að horfa á?
Stuttlisti Financial Times fyrir bestu viðskiptabækur ársins. Persónulega er ég sérstaklega spenntur fyrir fyrstu bókinni á listanum.
(KF.)
Hvort er það heilinn eða maginn sem skilgreinir hver við erum?
Börn þurfa svigrúm til að þroskast og dafna og hlé frá foreldrum sínum sem í dag virðast vera eins konar einkabílstjórar, brytar og allsherjar-nostrarar gagnvart afkvæmum sínum, ofurseldir duttlungum og dyntum hinna litlu, eltandi þau um Kringluna og leikvelli og útisvæði, örvæntingarfullir á svip. Brosti því með sjálfum mér þegar ég rakst á þessa grein í NYT sem heitir einmitt „Parents Should Ignore Their Children More“.
Til að sporna við lunnulausri skjástörunni stofnaði ég aftur til prentáskriftar við nokkur tímarit, meðal annars The London Review of Books. „Horny Robot Baby Voice: On A.I. Chatbots“ var ansi góð. Hrollvekjandi um margt …
Ef marka má þessa grein er Hollywood að deyja, að minnsta kosti hvað handritshöfunda snertir …
Afburðanemendur í bandarískum skólum geta ekki lengur lesið heilar bækur og verða fjarrænir til augnanna og flóttalegir þegar tekist er á við flóknar og mótsagnakenndar hugmyndir í skólastofunni. Kannski ýkjur? Kennarar og prófessorar segja að minnsta kosti að það verði æ erfiðara að leggja fyrir heilar bækur og sígild bókmenntaverk.
Bækur
Skálds saga
Ég hafði gaman af því að lesa Skálds sögu eftir Steinunni Sigurðardóttir, þar sem hún rekur ritferil sinn, flettir hulunni af sköpunarferlinu, veitir ýmiss konar heilræði hvað skrif og sköpun snertir og fjallar auðvitað um eigið líf enda ævi þess, sem lifir í bókunum sínum,
Bókin minnti mig um margt á uppáhaldsbækur eftir tvo höfunda af sömu kynslóð, annars vegar minningaþríleik Sigurðar Pálssonar, Minnisbók, Bernskubók og Táningabók, og hins vegar endurminningar Péturs Gunnsarssonar, Veraldarsaga mín og Skriftir. (Vonandi fáum við fleiri í þeim anda frá P.G.) Þau eru öll af hinni svokölluðu „fyndnu kynslóð“, skemmtileg á pappírnum en líka fróð, lífsreynd og með afburðatök á íslenskunni, sem verður æ sjaldgæfara. Takk fyrir þessa, Steinunn!
Hnífur
Salman Rushdie kom nýlega hingað til landsins til að þiggja verðlaun og ég hitti hann í matarboði. Samræður okkar þar voru svo sem ekkert sérlega eftirminnilegar, enda ekki hægt að ætlast til þess, en urðu þó til þess að ég seildist eftir nýjustu bók hans, Hníf, sem fjallar um óhugnanlega hnífsárás sem hann varð fyrir, bataferlið og eftirköstin. Fínasta lesning og virkilega góð þýðing hjá Árna Óskarssyni. Komið á stefnuskrána að lesa eina af stóru bókunum hans, líklega Miðnæturbörn, sem leynist hér uppi í hillu. Heimildin setti Rushdie í brennidepil í sérstökum kálfi um daginn; hér tiplar þýðandi hans, Árni Óskarsson, t.d. á helstu bautasteinum á ferli höfundarins.
The Vegan
Nýlega hlaut Han Kang Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Hún er meðal annars þekkt fyrir bókina The Vegetarian, eða Grænmetisætuna, sem ég las fyrir mörgum árum úti í New York, mér til lítillar hrifningar, og fylgdist svo undrandi með sigurgöngu hennar í kjölfarið - Booker-verðlaunum og ég veit ekki hvað og hvað, og nú Nóbelsverðlaunum. Eflaust þyrfti ég að gefa Kang annan séns. Á dögunum las ég hins vegar aðra bók með svipuðum titli, The Vegan, eða Grænkerann, eftir Andrew Lipstein, höfund sem er á sama aldri og undirritaður og skrifaði einnig Last Resort sem ég hafði gaman af. The Vegan fjallar um mann sem starfar í fjármálaheiminum í New York og er, í samspili við einhverja tæknihausa, að hanna algóritma sem spáir fyrir um sölu og kaup á hlutabréfum og á, ef allt gengur eftir, eftir að gera nútímamarkaðsviðskipti úrelt og breyta öllum heiminum. Kannski þjáist okkar maður af samviskubiti yfir því að stunda svo harðsvíraða atvinnu og því leggur hann niður dýraát og gerast grænkeri til að bæta ráð sitt. Fín bók en greip mig ekki jafn sterkt og Last Resort enda þótt hugmyndin sé skemmtileg.
(SN.)
Af einhverjum ástæðum hef ég aldrei haft sérstaka ánægju af því að lesa glæpasögur, en njósnasögur eru e.t.v. sú undirgrein skáldsagna sem ég hef mest gaman af. Klassískir höfundar eins og John Le Carré og Graham Greene eru þar í miklu uppáhaldi en stundum reyni ég að kynna mér nýja höfunda. Einn þeirra nýju höfunda sem mér hefur fundist skemmtilegastur er Mick Herron sem hefur gert garðinn frægan vegna Slough House bókaseríunnar. Bækurnar fjalla um hóp misheppnaðra starfsmanna bresku leyniþjónustunnar MI6 sem er vísað í hálfgerða útlegð þar sem þeir eiga að sinna leiðinlegum skriffinnskustörfum undir stjórn hins dásamlega óheflaða og dónalega Jackson Lamb. Svo lenda þau að sjálfsögðu í alls konar ævintýrum og fást við margt flóknara og hættulegra en lagt var upp með í upphafi. Ég mæli með því að lesa þær allar í réttri röð en Real Tigers og Spook Street eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Bækurnar hafa verið yfirfærðar í vinsælar þáttaraðir þar sem Gary Oldman leikur aðalhlutverkið með glæsibrag. Get klárlega mælt með bæði bókunum og þáttunum.
Nýlega rak ég augun í auglýsingu fyrir nýja kvikmynd með stórleikaranum Cilian Murphy í aðalhlutverki. Allt við myndina virkaði svo kunnuglegt, eins og að ég hafði lesið mér til um söguþráðinn áður. Þá áttaði ég mig á því að myndin er gerð eftir bók eftir írska rithöfundinn Claire Keegan sem heitir Small Things Like These og kom nýlega út í frábærri íslenskri þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur undir titilinum Smámunir sem þessir. Svo heppilega vildi til að mamma mín var búin að lána mér eintak fyrir einhverjum vikum síðan og því nokkuð auðsótt að byrja að lesa bókina. Hún er stutt en um leið virkilega kraftmikil og skilur mikið eftir sig. Persónurnar ljóslifandi og sterkar og umfjöllunarefnið átakanlegt, sérstaklega þar sem sagan byggir lauslega á sönnum atburðum. Mæli með því að lesa hana í einni beit.
(KF.)
Hlaðvörp
Frábært viðtal við Nassim Taleb. Frekar tæknilegt á köflum en ágætis innsýn inn í hugarheim hans. Mæli með hlaðvarpsþáttaröðinni sjálfri, Joe Walker Podcast. Margar kanónur búnar að kíkja í viðtal þangað.
Eitt af því skemmtilega við hlaðvörp er að þau geta farið á dýptina á þröngu sviði en samt notið töluverðra vinsælda. Gott dæmi um slíkt finnst mér vera eitt af mínum uppáhalds hlaðvörpum, Acquired, þar sem þáttastjórnendurnir tveir taka nördalega og vandaða yfirferð yfir sögu hinna og þessara fyrirtækja, þá einna helst tæknifyrirtækja. Þátturinn hefur náð það miklum vinsældum að þeim tókst að fylla nýlega íþróttaleikvang af fólki til að hlusta á þátt í beinni þar sem m.a. Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook var í fínu viðtali. Mæli sérstaklega með þáttunum þeirra um Microsoft, Hermès, Visa og Costco.
(KF.)