Leslistinn #92
Góð ritdæmi, dauði menningarinnar, vélræn hrós, hnignun fjölmiðla, norsk rithross og mikilvægt rusl.
Um Leslistann
Leslistinn er kannski áreiðanlegasti fjölmiðill landsins. Um er að ræða fréttabréf sem haldið er úti af tveimur snyrtilegum íslenskum skattgreiðendum, þeim Kára Finnssyni og Sverri Norland. Hér finnurðu ábendingar um alls kyns skemmtilegt lesefni en sömuleiðis tillögur að hlaðvörpum, tónlist, sjónvarpi og öðru uppbyggilegu og mannbætandi efni. Leslistinn er alltaf til staðar fyrir þig.
Ertu með ábendingu handa Leslistanum? Sendu okkur línu.
Hlekkir
Skemmtileg síða þar sem hægt er að finna ýmis ritdæmi frá góðum og fjölbreyttum hópi rithöfunda.
Af hverju málverk skipta ennþá máli.
Góður listi yfir áhugaverðan skáldskap um fjármálaheiminn.
Hefur þú ekki alltaf velt fyrir þér sögunni á bak við örbylgjuofna?
Hvernig varð poppmenning svona niðurdrepandi? Áhugaverð kenning studd raunverulegum gögnum.
Fréttir um dauða menningar hafa verið stórlega ýktar. Er TikTok-væðing að drepa menningu eins og við þekkjum hana eða erum við að skoða þessi fyrirbæri úr rangri átt? Kannski er besta leiðin til að skilja þróun menningar fólgin í því að hætta að sækjast eftir því sem maður sjálf/ur vill sjá í henni. Þ.e. ekki bera saman skemmtilegan tikktokkara við Halldór Laxness.
Nú er væntanlegt borðspil eftir rithöfundinn heimsþekkta, Kurt Vonnegut.
(KF.)
Það er svolítið hlægilegt (eða sorglegt) að tæknifyrirtæki borgi forriturum fúlgur fjár fyrir að þróa forritin sín en ætlist um leið til þess að geta sölsað undir sig hugverk annarra og notað sem „gögn“ án þess að greiða krónu fyrir. Listamenn um allan heim mótmæla þessari þróun.
Vantar þig hrós? Hér slá tilfinningalausar vélraddir þér ómótstæðilega gullhamra!
Billy Joel er að selja kotið. Sjón er sögu ríkari.
Það væri úrdráttur að segja að ég hafi áhyggjur af stöðu fjölmiðlunar í samtímanum. Við reiðum okkur á fjölmiðla um upplýsingaflæði, meðal annars um kosningarnar framundan; blaðamenn eru varðhundar sem ættu að veita eins hlutleysislega lýsingu á samfélaginu og hægt er svo að almenningur geti vegið og metið ólík rök og tekið afstöðu, t.d. þegar kosið er á þing (Einn bjartsýnn!). Hins vegar er óhugnanlegt hversu mjög blaðamönnum hefur fækkað á síðustu árum. Einhverjar tölur frá Blaðamannafélaginu sögðu að hérlendis hefði þeim fækkað um sirkabát 66% á síðustu 10-15 árum; ég hef áður hlekkjað á þá skýrslu. Hvað um það, hér er áhugaverð grein um ólíkar kynslóðir blaðamanna í Bandaríkjunum. Í pistlinum er m.a. vísað í nýlega umfjöllun The New York Times þar sem hin eldri í bransanum kvarta, oft undir nafnleynd, yfir metnaðarleysi og vanhæfni hinna yngri (eins og eldra fólk hefur alltaf gert), en hin yngri (sem koma fram undir nafni) benda aftur á móti á móti á hræðileg starfsskilyrði stéttarinnar í samtímanum og ömurlegar framtíðarhorfur. Já, hvað er til ráða?
(SN.)
Bækur
The Morning Star
Hið óstöðvandi norska rithross, Karl Ove Knausgård, dælir nú frá sér skáldsögum í nýjum ritflokki, Morgunstjörnubókunum svokölluðu. Sú þriðja kom nýlega út á ensku, Þriðja ríkið nefnist hún; uppi í hillu hjá mér leynist svo bók númer tvö, Úlfar eilífðarinnar, enn ólesin – fjórða bindið, Næturskólinn, hefur fengið rífandi góðar viðtökur í Skandinavíu og margir telja hana bestu bók höfundarins til þessa. Fyrsta verkið í flokknum, doðrantinn Morgunstjörnuna eða The Morning Star (og þetta eru auðvitað allt hálfgerðir doðrantar), las ég í enskri þýðingu síðastliðið sumar. Knausgård hefur einhvern undarlegan hæfileika til að fanga lesendur í óstöðvandi orðanet sitt og halda þeim þar hugföngnum jafnvel þótt hann flakki á milli ótal persóna, flétti inn heilu ritgerðunum og alls kyns útúrdúrum, og oft sé hálf óljóst hvert stefnt sé í sögunni. Ég gleypti Morgunstjörnuna að minnsta kosti í mig rétt eins og bækurnar sex í ævisagnaflokknum hans, Min kamp. Í skáldsögunni fyrrnefndu fylgjumst við með hópi persóna í litlum bæ í Noregi, sem verður þess smám saman áskynja að ný og einkennileg stjarna glóir yfir höfðum þeirra hátt uppi á himni. Hvað táknar morgunstjarnan? Bendir hún til þess að einhverjir djöfullegir kraftar hafi losnað úr læðingi eða er hún kannski bara merkingarlaus? Við lesturinn fannst mér nokkuð ljóst að Knausgård væri undir miklum áhrifum af hinni stórklostlegu 2666 eftir Roberto Bolano – ein af mínum upppáhaldsbókum - og fékk það svo staðfest hér þegar sá norski valdi tíu bestu bækur 21. aldarinnar í greinarkorni hjá The New York Times. Við félagarnir höfum reyndar ansi svipaðan smekk: Ég hef lesið níu af þeim tíu höfundum sem hann nefnir og sjö af þessum tilteknu titlum og er hrifinn af þeim öllum ef frá er talinn Ishiguro.
Ég man þig
Er Ég man þig? besta bók Yrsu? Hvað segja lesendur listans? Ég greip hana af rælni um daginn og flaug í gegnum hana. Fínt að láta hræða úr sér líftóruna nú þegar dagarnir eru teknir að styttast. Ungt þríeyki (par og vinkona þeirra, ekkja) ferðast á afskekktan stað fyrir vestan til að gera upp gamalt hús. Á Ísafirði býr ungur læknir sem missti son sinn á sviplegan hátt (sonurinn hvarf og fannst aldrei). Örlög þessara fjórmenninga, og ýmissa fleiri, fléttast saman – og mér fannst helvíti flott hvernig Yrsa nær að hnýta alla þræðina saman. Stundum þarf maður að lesa góða draugasögu.
Tjörnin
Rán Flygenring er iðin við kolann. Nú var hún að senda frá sér Tjörnina, sögu um tvo krakka sem uppgötva steypta tjörn í garðinum hjá sér. Vatn virkar eins og segull á lífverur (mannfólk ekki síður en önnur dýr) og þegar krakkarnir fylla tjörnina af vatni dregur það dilk á eftir sér og verður þeim sömuleiðis kennslustund um lífið á jörðinni. Hugmyndaríkur teiknistíll og góður boðskapur sem Rán miðlar á afar fínlegan og lítt predikandi hátt.
(SN.)
Mikilvægt rusl
Vinur okkar Sverris, Halldór Armand, gaf nýlega út bókina Mikilvægt rusl sem ég hvet alla til að kaupa og lesa. Bókin hefst daginn sem Geir Haarde biður Guð að blessa Ísland og fjallar um sorphirðufólk sem finnur afskorið nef í ruslatunnu sem á endanum leiðir þau inn í risavaxið samsæri sem teygir anga sína upp í efstu lög íslensks samfélags. Þessi bók er fyrst og fremst stórkostlega fyndin og skemmtileg, hún heldur manni við efnið allan tímann og það er erfitt að leggja hana frá sér. Það er alveg merkilegt hvað bækur geta orðið djúpar þegar grínið er haft í öndvegi.
Why Nations Fail
Nóbelsverðlaunin í hagfræði voru veitt nýlega þeim Daron Acemoglu, Simon Johnson og James Robinson fyrir rannsóknir þeirra um mikilvægi stofnana í efnahagslegum framförum þjóða. Glöggir áskrifendur Leslistans kannast örugglega við tvö þessara nafna en bók þeirra Acemoblu og Robinson, Why Nations Fail, var til umfjöllunar í listanum góða fyrir einhverjum árum síðan. Það er ekki oft sem þessir nóbelsverðlaunahafar skrifa aðgengileg rit fyrir almenning sem byggjast á rannsóknum þeirra og því er þessi bók algjör happafengur fyrir áhugafólk um hagfræði og velferð þjóða. Í bókinni er í grófum dráttum reynt að svara því af hverju gæðum heimsins er misjafnt skipt. Svarið er að þeirra mati að pólitískar stofnanir gegna lykilhlutverki við að safna og viðhalda auði innan þjóða. Þær þjóðir, sem eru einangraðar og þrengja að frelsi þegna sinna lúta, jafnan í lægra haldi fyrir þjóðum sem hafa opnara stjórnkerfi. Hljómar nokkuð skynsamt og einfalt en bókin er engu að síður vel þess virði að lesa.
(KF.)
Hlaðvörp o.fl.
Eftirlætis hagfræðingur okkar allra, Tyler Cowen, ræðir við tónlistarpródúsentinn Rick Ruben um klassíska tónlist. Fókusinn er á rússnesk tónskáld. Sérstaklega djúp og forvitnileg yfirferð. Stóð upp úr umfjöllunin um Scriabin og Stravinsky. Ég vissi að Stravinsky hafði verið áhrifamikill í menningarsögunni en ég áttaði mig ekki á því að hann hefði verið jafn áhrifamikill og gefið var í skyn í þessu spjalli.
Tónlistarmaðurinn Thundercat tekur saman uppáhalds bassalínurnar sínar. Mjög vel valið hjá honum og fróðlegt að hlusta á hann greina þessar línur í döðlur.
Mynd um Leonard Cohen, 30 ára, áður en hann gefur út fyrstu plötuna sína. Frábær ábending frá áskrifanda Leslistans.
(KF)
Frábært spjall Christopher Lydon við Nathan Thrall, höfundar bókarinnar A Day in the Life of Abed Salama. Fjallað um Palestínu á manneskjulegum nótum - markmið Thrall var að segja sögu og hreyfa við fólk, helst þannig að það táraðist. Það tekst.