Leslistinn #93
Framtíð ritlistar, líffræðingur í tímaflakki, snekkjur, menning í krísu og njósnarar
Um Leslistann
Leslistinn er ábyrgasti fjölmiðill landsins. Um er að ræða fréttabréf sem haldið er úti af tveimur snyrtilegum íslenskum skattgreiðendum, þeim Kára Finnssyni og Sverri Norland. Hér finnurðu ábendingar um alls kyns skemmtilegt lesefni en sömuleiðis tillögur að hlaðvörpum, tónlist, sjónvarpi og öðru uppbyggilegu og mannbætandi efni.
Ertu með ábendingu handa Leslistanum? Enga feimni, sendu okkur línu.
Hlekkir
Nú er ljóst að Donald Trump verður næsti forseti Bandaríkjanna. Margir klóra sér eflaust í kollinum yfir þessu en hér er að mínu viti ein besta útskýring sem ég hef lesið á því hvernig þetta gat gerst. Þess má geta að færslan var skrifuð í júlí. Ein nýleg grein um hvaða merkingu þessi tímamót hafa fyrir heimsbyggðina eftir John Gray er líka vel þess virði að lesa.
Tæknin mun í auknum mæli skilja á milli þeirra sem skrifa og þeirra sem ekki skrifa. Gervigreindin gerir það að verkum að færri og færri þurfa að skrifa til að ná einhverjum árangri í lífinu. Ástæðan fyrir því að þetta er slæmt að mati höfundar þessarar greinar er sú að getan til að skrifa vel er samofin getunni til að hugsa skýrt. Ef eitthvað er þá verður færni í rituðu máli því enn mikilvægari eftir því sem tækninni fleygir áfram.
Eitt besta fréttabréf sem ég veit um (að Leslistanum undanskildum) er fjármálafréttabréfið Money Stuff sem skrifað er af hinum frábæra Matt Levine hjá Bloomberg. Stíllinn hans er einstaklega skemmtilegur en um leið fræðandi. Honum tekst að setja mann inn í málefni líðandi stundar í fjármálaheiminum og á sama tíma fræða mann um flóknustu atriði fjármála á mannamáli. Oft hef ég velt því fyrir mér af hverju það eru ekki fleiri sem skrifa um flókin málefni eins og hann - af hverju er enginn að skrifa fyndin og fróðleg fréttabréf um líftækni eða skammtaeðlisfræði? Hér er þeirri spurningu svarað afdráttarlaust.
Af hverju er gotneskur arkítektúr álitinn svona draugalegur í dag?
Hvernig urðum við Doritos-væðingu fjölmiðla að bráð og hvað getum við gert í því?
Allt sem við héldum að við vissum um njósnara er rangt. Eðli málsins samkvæmt þurfa þeir að vera lágstemdir og falla frekar í fjöldann en að vera drykkfelld vöðvatröll og kvennabósar.
Hvernig er eiginlega að vinna í snekkju?
(KF.)
Þarna úti eru ansi margir Bob Dylan-nöttarar. Í Tulsa, Oklahoma, Bandaríkjunum, er sérstakt skjalasafn helgað servíettukroti og stílabókapári meistarans. Að verja deginum þar jafnast á við skoðunarferð um himnaríki - allavega í augum sumra.
Áhugaverð vefsíða: Sapiens. Alls konar skrif eftir mannfræðinga.
Elif Batuman um mikilvægi þess að halda minnisbók/dagbók – eða sleppa því bara.
Ágæt grein um uppáhaldsrithöfundinn minn, Cèsar Aira.
Sláandi úttekt á því hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa haft, og munu hafa, á líf ungs fólks úti um víða veröld.
The Economist birtir lista yfir bestu bækur ársins.
Bækur
Dauðinn einn var vitni, Stefán Máni
Ég þaut í gegnum nýjustu bók Stefáns Mána í tveimur lotum – segi bara bravó. (Hlýtur að vera ein besta bók höfundarins? - og bara ein besta íslenska glæpasagan?) Fléttan er í sjálfu sér ekki svo ýkja frumleg – incel-týpa ákveður að fremja hryðjuverk vegna þess að pabbi og mamma voru svo vond og stelpa hafnaði honum – en úrvinnsla höfundarins er hnökralaus; spennan magnast hægt og örugglega og hvergi slegin feilnóta, fannst mér. Ekki spillir að maður gjörþekkir sögusviðið: Hlíðarnar, Norðurmýrina, Skerjafjörðinn. Stefán Máni er líka flinkur í að lýsa öllum fjandanum: landslagi, útliti fólks, bílvélum, matargerð …
Greip þessa af rælni í bókabúð í Kaupmannahöfn fyrir nokkru án þess að þekkja höfundinn og sé sannarlega ekki eftir því. Ljóðrænar hugleiðingar um náttúruna, tímann, geimferðalög. Skrítin en eftirminnileg skáldsaga um líffræðing – og stærstu spurningarnar í tilverunni.
Feeding the Monster, Anna Bogutskaya
Ég er svona laumu-hrollvekjuaðdáandi og hafði gaman af þessari ritgerð um uppgang alls kyns indie hryllingsmynda á síðustu árum. Á sama tíma og Hollywood hefur bólgnað út af endalausum ofurhetjuleiðindum og gamaldags stórstjörnu-„farartækjum“ fækkað, hefur orðið til farvegur fyrir alls kyns skrítnar hryllingsmyndir sem rata til áhorfenda um allan heim, til að mynda verk frá Kóreu en sömuleiðis Evrópu og Bandaríkjunum (It Follows, The Witch).
Anna Bogutskaya vitnar oft í gamla uppáhaldsbók, Danse Macabre, eftir títtnefndan Stephen King. Þar fer okkar maður yfir sögu hryllingsbókmennta- og bíómynda á afar lifandi og innblásinn hátt.
(SN.)
The Crisis of Culture, Oliver Roy
Til eru tvær leiðir til að skilja fyrirbærið „menning“. Önnur þeirra vísar til sameiginlegra gilda, viðmiða og siða sem er oft erfitt að færa í orð. Hvort sem það er hvort maður fari úr skónum þegar maður fer inn í hús eða hvort maður er með höfuðslæðu þá er þessi „menning“ oft það sem helst sameinar okkur. Svo er það hin menningin, sem er alls ekki ótengd hinni, en það er hin listræna „menning“, listræn framleiðsla sem við teljum til sameiginlegra menningarverðmæta.
Á síðastliðnum árum hefur eitthvað átt sér stað sem hefur breytt menningu eins og við höfum þekkt hana síðastliðnar aldir, sama um hvora tegund menningar er að ræða. Að mati Oliver Roy, höfundar bókarinnar sem hér um ræðir, The Crisis of Culture, er ekki um einhvers konar umbreytingu frá einni menningu til annarar, eins og t.d. frá menningu sveitalífs yfir í menningu borgarlífs eða menningu eins trúarhóps yfir í annan. Í raun er fyrirbærið „menning" að þurrkast út. Þetta er einhver áhrifamesta bók sem ég hef lesið lengi og nær einhvern veginn að færa í orð það sem maður hefur haft á tilfinningunni lengi en hefur ekki náð að orða almennilega.
Birtingarmyndir þessara breytinga er að finna víða: Eitt dæmi er t.d. að skoða muninn á kvikmynd sem er gerð á áttunda áratugnum og tíunda áratugnum og skoða svo til samanburðar kvikmynd sem er gerð 2008 og 2018. Munurinn á milli síðarnefndu myndanna er furðulítill. En þetta á einnig við um siði og venjur þjóða sem eitt sinn voru mun frábrugðnari en þær eru í dag. Takið líka eftir því hvernig þetta er að speglast í pólítíkinni. Munurinn á milli stjórnmálaflokka er farinn að verða mun óljósari, hvað nákvæmlega er hægriflokkur og hvað er vinstriflokkur í dag? Á einhvern undarlegan hátt eru líka allir í einhvers konar minnihlutahópi, hvort sem um ræðir „ráðandi stéttir“ eða ekki.
Fyrstu viðbrögð mín við þessum lestri er að þetta sé afar sorgleg þróun. Það er eitthvað dapurlegt við að menningarlegur munur sé að þurrkast út þar sem menning gefur svo mikla dýpt og merkingu í daglegt líf okkar allra. Á hinn bóginn getur menning verið einangrandi og hamlandi, sérstaklega þar sem við viljum að fólk geti ferðast frjálslega milli stétta og landamæra og miðlað áfram þekkingu öllum til góðs. Höfundur bókarinnar endar hana á frekar svartsýnum nótum og sér ekki neina lausn í sjónmáli á þessari klípu sem menningin stendur frammi fyrir. En hvort sem við erum svartsýn eða bjartsýn fyrir hönd menningarinnar þá finnst mér persónulega þetta vera eitt mikilvægasta viðfangsefni okkar um þessar mundir.
(KF.)
Hlaðvörp o.fl.
Mjög forvitnilegt viðtal við stofnanda MSCHF sem eru eins konar listræn samtök (?) sem hafa gerst fræg fyrir m.a. að selja örsmáa Louis Voitton handtösku, nike strigaskó fyllta af vígðu vatni og margt fleira skrítið og skemmtilegt.
(KF.)