Leslistinn #94
Veganesti inn í nýtt ár, bókasafn Knausgaards, loftslagsbreytingar, samruni heila og tækja, metabókarýni, feðraveldið og ritstörf með fullu starfi.
Um Leslistann
Leslistinn er líklega ábyrgasti fjölmiðill landsins. Um er að ræða fréttabréf sem haldið er úti af tveimur snyrtilegum íslenskum skattgreiðendum, þeim Kára Finnssyni og Sverri Norland. Hér finnurðu ábendingar um alls kyns skemmtilegt lesefni en sömuleiðis tillögur að hlaðvörpum, tónlist, sjónvarpi og öðru uppbyggilegu og mannbætandi efni.
Ertu með ábendingu handa Leslistanum? Enga feimni, sendu okkur línu.
Hlekkir
Hvernig getum við tamið okkur að fíla hluti meira? Gott veganesti inn í nýtt ár.
Annað gott veganesti inn í nýja árið: Viltu verða góð/ur í einhverju? Leggðu þá tíu sinnum meira á þig en þú hefðir annars gert.
Dásamlegt ferðalag um bókasafn Karl Ove Knausgaard. Við þurfum margfalt fleiri svona greinar.
Hér skrifar maður frábæra grein um sex hluti sem hann lærði af því að vinna í listagalleríi. Mjög margt gagnlegt sem hægt er að taka með sér í hvaða störf sem er.
Góð grein um smekk og hvað góður smekkur fyrir hlutunum þýðir í raun og veru. Að mínu viti munu verðmæti þess að hafa góðan smekk aðeins aukast með tímanum.
Gott viðtal sem fjallar um áhrif tækninnar á hvernig við horfum á myndlist.
(Kári)
Ágætis viðtal við Nick Cave í The Atlantic.
Hvenær ætlum við að finna hugrekkið til að raunverulega berjast gegn loftslagsbreytingum? spyr Sally Rooney í þessum pistli.
Átta klukkustunda vinnudagar við skrifborð meika engan sens, um það eru allir sammála. Fólk vinnur í stuttum skorpum, restin af tímanum fer í gauf, dól, rabb, hringsól um kaffivélina, augngotur á klukkuna. Af hverju styttum við þá ekki vinnudaginn?
Lamaður maður getur nú gefið tölvu skipanir með heilabylgjum. Ber framtíðin í skauti sér síaukinn samruna við vélar og tækni?
Mjög áhugaverð gömul grein um skrítin afkima í japönsku samfélagi - „þá sem gufað hafa upp“. Fólk sem getur ekki tekist á við áskoranir í vinnu eða einkalífi, eða hefur upplifað einhvers konar óbærilega smán, getur keypt þjónustu af fólki sem hjálpar því að „hverfa“.
Manneskja ársins er Gisèle Pelicot. Sterk grein eftir Sophie Smith í The London Review of Books um hana og eitt mest hrollvekjandi mál síðustu ára í frönsku réttarkerfi.
(Sverrir)
Bækur
Það er mjög meta að skrifa hér í Leslistanum um nýútgefna bók þar sem Leslistann ber á góma. En þannig er það nú í Innanríkinu hans Braga Ólafssonar sem kom út fyrir jól og er ævisöguleg frásögn/esseyja í anda höfundarins; ekki línuleg frásögn heldur full af sprikli og útúrdúrum, fótnótum, rangölum, krákustígum og bókmenntalegum rússíbönum og rennibrautum. Á spjöldum verksins nefnir Bragi sem sagt þá reynslu sína að vera skipaður í ráðuneyti Leslistans – sem gerðist árið 2018, um sumar; hér er formleg skjalfesting á því - og þá rakti hann í fyrsta skipti sögu sem hann rifjar sömuleiðis upp í bókinni nýju. Ég hafði mjög gaman af því að lesa þessar æviminningar Braga og skilst að útgáfa verksins marki upphafið á nýjum minningabálki í ekki færri en níu bindum. Hlakka til að fá það næsta! Engin pressa samt, Bragi.
Að mínu viti er Guðmundur Andri einn vanmetnasti skáldsagnahöfundur þjóðarinnar. Hann er sannarlega dáður sem einn flinkasti pistla- og ritgerðasmiður samtímans og hefur auðvitað verið ausinn lofi fyrir skáldsögur sínar og smásagnasöfn; mig minnir til dæmis að sagnasveigurinn Valeyrarvalsinn hafi verið tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna eða kannski voru það bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. (Fólk útdeilir svo mikið af verðlaunum að þetta klístrast allt saman í huganum.) Nýjasta bók Andra, Synir himnasmiðs, sem mér skilst að hafi upprunalega borið vinnutitilinn Feðraveldið, fjallar um tólf karlmenn á ólíkum skeiðum og stöðum í lífinu; allir eru þeir afkomendur sama karls frá 19. öld og eiga í ólíku brasi og glímu við hversdaginn. Sterk persónusköpun og natni við lýsingar á tilfinningalífi og núningi á milli fólks eru sérkenni höfundarins og honum bregst ekki bogalistin í þessari stuttu en þó stóru bók.
Liz Moore er svo nýr uppáhaldshöfundur. The God in The Woods er spennusaga, eins konar morðgáta, en alls ekki dæmigert verk af því taginu. Sagan gerist á tveimur tímaplönum, mest árið 1960 og 1975, en á þessum árum hverfa börn sterkefnaðrar bankafjölskyldu frá Albany í New York-fylki, fyrst Bear, seinna Barbara, og óljóst hvað varð raunverulega um krakkana. Sögusviðið er mestmegnis stór eign fjölskyldunnar og sumarbúðasvæði fyrir ungmenni sem rekið er í námunda við ættarsetrið mikla. Ég dáist að færni Liz Moore við að flétta frásögnina saman, læða inn vísbendingum (og rauðri síld) hér og þar, og leiða lesandann gegnum söguna, með alls kyns tímaflakki og fjöldamörgum persónum, á algjörlega snurðulausan hátt. Ég er strax kominn með fyrri bók Moore í hendurnar, Long Bright River, og sú fer ekki síður vel af stað. Þar, rétt eins og í The God in the Woods, er ein aðalpersónan ung kona í rannsóknarlögregluhlutverki, og þarf að takast við alls konar karlrembukæki og vantrú annarra á færni hennar í starfi, og Moore læðir slíkum molum inn á fágaðan og fínan hátt, án þess að verða nokkru sinni predikandi um galla feðraveldisins, sem Guðmundur Andri fjallar einmitt um í sinni bók, þó á gjörólíkan hátt.
(Sverrir)
Þessi bók lítur út fyrir að vera flugvallarbók en er það alls ekki. Second Act eftir Henry Oliver er djúp og góð bók sem fjallar um hvernig fólk nær árangri á seinni helmingi lífsskeiðs síns. Þetta er ekki sjálfshjálparbók sem gefur þér tíu skref til að ná árangri á fimmtugsaldri heldur samansafn skemmtilegra og fróðlegra dæma um árangur fjölbreyttra einstaklinga á seinni hluta lífsskeiðs þeirra og hvað þessi dæmi geta kennt okkur hinum. Það góða við þessar dæmisögur er að jafnvel þótt maður þekki sögu þeirra einstaklinga, sem nefndir eru í bókinni þá nær höfundinn að skrifa nýja sýn á lífshlaup þeirra sem maður hafði ekki séð áður. Kanónur eins og Katherine Graham, útgefandi Washington Post, Ray Kroc, maðurinn á bak við útrás McDonald’s, Margaret Thatcher og Frank Loyd Wright, svo dæmi séu tekin, eru til umfjöllunar í þessari bók sem skilur mikið eftir sig.
Það er fátt betra en að eyða jólafríinu með safaríkum njósnaþriller. Fann þessa frábæru bók eftir fyrrum CIA greinandann David McCloskey sem fjallar um samsæri innan bandarísku leyniþjónustunnar og varpar áhugaverðu ljósi á hvernig þjónustan starfar í raun og veru. Það er næstum hægt að líta á hana sem hraðari og nútímalegri útgáfu af Tinker, Tailor, Soldier, Spy eftir John Le Carré. Þótt hún sé ekki nærri jafn góð og sú klassík þá er gaman að sjá skemmtilega nýliðun í þessari bestu grein fagurbókmennta.
(Kári)
Hlaðvörp og annað
Mjög greinargóð umfjöllun á myndbandsformi um hvernig á að vera rithöfundur með fullu starfi.
Víkingur Heiðar, píanistinn snjalli, í geggjuðu viðtali við tónlistarpródúsentinn Rick Rubin.
(Kári)