Leslistinn #95
Vekni, lekandi, strákaíbúðir, einmanaleiki, trúleysi, ópíóðar, gervigreind, ábyrgðarleysispyttir og ástleysi Rómeó og Júlíu
Um Leslistann
Leslistinn er fréttabréf sem haldið er úti af tveimur samviskusömum íslenskum skattgreiðendum, þeim Kára Finnssyni og Sverri Norland. Hér finnurðu ábendingar um alls kyns skemmtilegt lesefni en sömuleiðis tillögur að hlaðvörpum, tónlist, sjónvarpi og öðru uppbyggilegu og mannbætandi efni.
Ertu með ábendingu handa Leslistanum? Enga feimni, sendu okkur línu!
Hlekkir
Hvaðan kom vókið? Djúp og góð greining á því hvernig nútímasiðbótin, hið svokallaða woke, varð til. Sama á hvorum ásnum maður stendur í þeirri umræðu þá er þetta flott lesning.
Stórfurðuleg grein um sölumennsku frá manni sem starfaði lengi sem símasölumaður. „Ég var um tíma besti símasölumaður í Bandaríkjunum. Af hverju ætti ég að ljúga að því? Það er eins og að ljúga að því að maður sé með lekanda.“
Þarf alltaf að leggja mikið á sig til að ná árangri? Virkilega góð grein sem er að megninu til samansafn tilvitnana um hversu miklu máli fyrirhöfn skiptir ef markmiðið er að afreka eitthvað sem ekki var talið mögulegt áður.
Eru hugsuðir nútímans að gefa trúleysi upp á bátinn?
(Kári)
Ungt fólk er hætt að skemmta sér og hafa gaman en engist þess í stað heima hjá sér eitt og yfirgefið baðað fölblárri skímu símaskjássins á meðan það drungaskrunar (e. doom-scrolling). Aftur á móti sletta hinir alræmdu beibíbúmers úr klaufunum sem aldrei fyrr og eru eilífðarunglingar heimsins!
Hvað gerir kona sem kemur að sofandi karlmanni? Áhrifarík hugvekja um Gisèle Pelicot-málið.
Ættum við að lesa 700 blaðsíðna doðrant um Abba? Nei, eflaust nægir þessi greinarstúfur … en hann er skemmtilegur.
Það verður æ algengara að karlar taki innanhússhönnun í vistarverum sínum föstum tökum. Hér er fjallað um svokallaðar strákaíbúðir eða boy apartments, til mótvægis við hin alræmdu piparsveinagreni eða bachelor pads. Eru hinir nýju snyrtipinnar til fyrirmyndar eða bara leiksoppar neysluhyggjunnar?
Samkvæmt þessari grein verður daglegt líf Bandaríkjamanna sífellt einmanalegra. Karlar sem horfa á sjónvarp eyða að jafnaði sjö klukkustundum fyrir framan skjáinn á móti hverri klukkustund sem þeir eyða í félagsskap annarra utan heimilisins; hin dæmigerði kvenkyns gæludýraeigandi eyðir meiri tíma í að dekstra við gæludýrin sín en í samskipti augliti til auglitis við vini af eigin dýrategund; táningar eiga færri vini og félaga en fyrri kynslóðir og eyða einni af hverri þremur mínútum vökunnar starandi á skjá. Hressandi lesning! (Og ábending: Munum að hittast og hafa gaman saman! Ekki nóg að lesa bara á skjánum.)
(Sverrir)
Bækur
How AI Will Change Your Life, Patrick Dixon
Ég hef verið að undirbúa kúrs sem ég kenni nú á vorönn í Háskóla Íslands, „Spunagreind og sköpun“, og renndi m.a. yfir How AI Will Change Your Life eftir Patrick Dixon í þeim vinnuspretti. Knappur texti, mikið um fyrirsagnir, ekki kafað svo ýkja djúpt – sem sagt hálfgerð flugvallabók (enda keypti ég hana á flugvelli) - en fyrir vikið fer hún víða og veitir ágætis tilfinningu fyrir mögulegum áhrifum gervi- og spunagreindar á samfélagið á næstu árum. Dixon flakkar á milli ýmissa geira og sviða mannlegrar tilveru og spáir meðal annars í hvaða áhrif gervigreind muni hafa á vinnustaði, heilbrigðisgeirann, lyfjaframleiðslu, bankakerfi heimsins, skapandi greinar og fjölmiðla, matarframleiðslu og geimferðir og stríðsrekstur en einnig á ástar- og vináttusambönd fólks og internetið sjálft. Hvað síðastnefnda atriðið varðar hefur maður einmitt svolitlar áhyggjur. Dixon skrifar meðal annars (bls. 135): „AI can scan hundreds of news sites in seconds and create rehashed content that appears original, but is in fact culled from the work of human journalists.“ Afleiðingin kann að vera ör hnignun gæða ritaðs efnis á netinu: „[N]ext generation AI search may end up destroying the quality of online content, causing it to degrade and go out of date, by removing financial rewards for website owners.“ Seinna ritar hann svo: „As a result, the entire online library of written material starts to degenerate to the point where, by 2035, possibly only 1% of the entire web is still original – all the rest is AI mash-ups.“ Þetta er ágætt yfirlitsrit fyrir þá sem vilja fá nasaþefinn af ýmsum breytingum sem eru í farvatninu og nota kveikjur úr bókinni til að kafa dýpra með frekara grúski/lestri.
Long Bright River, Liz Moore
Ég hrundi í hræðilega flensu og lá marflatur dögum saman í þykkri heilaþoku. Hausinn var óvirkur lengst af en þegar rofaði til þræddi ég mig í gegnum léttan en afar vel fléttaðan reyfara, Long Bright River eftir Liz Moore, og var nokkuð sáttur. (Ég skrifaði um aðra bók hennar, The God in the Woods, í síðasta lista.) Hér fylgjum við lögreglukonu á fertugsaldri sem býr og starfar í fátæku hverfi Chicago-borgar og vakir þar yfir yngri systur sinni sem er djúpt sokkin í eiturlyfjaneyslu. Flott spennusaga sem fjallar jafnframt um fjölskyldu- og vinasambönd, áskoranir einhleyprar móður í fullu starfi og, ekki síst, hin hræðilega ópíóðafaraldur í Bandaríkjunum.
(Sverrir)
Hnaut nýlega um bókina The Unaccountability Machine eftir hagfræðinginn Dan Davies. Skemmtileg og fróðleg bók um hvernig sjálfvirknivæðing og flókin kerfi nútímalífs hafa gert það verkum að persónuleg ábyrgð okkar fer dvínandi og úr verður samsuða af ákvörðunum og niðurstöðum sem enginn skilur eða er ánægður með. Hann lýsir því hvernig eins konar „ábyrgðarleysispyttir“ (e. unaccountability sinks) verða til undir slíkum kringumstæðum þar sem ákvarðanir eru faldar á bak við flókið regluverk eða staðlaða verkferla sem gera það ógerlegt að rekja mistök beint til einstaklinganna á bak við ákvarðanirnar. Ýmislegt sem hægt er að taka til sín við lestur bókarinnar og ekki spillir fyrir hvað hún er fyndin og skemmtileg.
(Kári)
Hlaðvörp og annað
Stutt og laggott myndband um muninn á því að vera skilvirkur og árangursríkur. Þetta er einmitt kjarninn í bókinni sem ég þýddi fyrir ekki svo löngu um Árangursríka stjórnandann. Mæli líka með frábærri bók eftir þann sem talar í myndbandinu, William McDonough, sem heitir Cradle to Cradle og er eins konar undirstöðurit í sjálfbærnifræðum.
Gott viðtal við vin Leslistans, Tyler Cowen, um ýmislegt en þó aðallega bókmenntir og fyrst og fremst Shakespeare. Kemur t.d. fram þarna að Rómeó og Júlía voru í raun ekkert ástfanginn, Júlíus Sesar er ofmetið leikrit og að Shakespeare á nútímaensku væri skelfileg lesning!
(Kári)