Leslistinn #96
Áfengi, myndskreytingar, jarðlestir í New York, spunagreind, pappýrus, gítarleikari í plötubúð og of mikil skilvirkni
Um Leslistann
Leslistinn er fréttabréf sem haldið er úti af tveimur samviskusömum íslenskum skattgreiðendum, þeim Kára Finnssyni og Sverri Norland. Hér finnurðu ábendingar um alls kyns skemmtilegt lesefni en sömuleiðis tillögur að hlaðvörpum, tónlist, sjónvarpi og öðru uppbyggilegu og mannbætandi efni.
Ertu með ábendingu handa Leslistanum? Enga feimni, sendu okkur línu!
Hlekkir
Er hófleg áfengisneysla í lagi? Vönduð grein sem fer í saumana á þessu viðfangsefni og kafar djúpt í helstu rannsóknir á þessu sviði. Þumalputtaregla mín þegar kemur að öllum heilsufarsrannsóknum er að leita að rannsóknum sem staðfesta að það sé í góðu lagi fyrir mig að borða pítsu og drekka vín. Hefur gengið vel hingað til!
Nú eru hagræðingar og aukin skilvirkni mikið í umræðunni. En hvað gerist ef við göngum of langt í skilvirkninni?
Á meðan þið lúðarnir horfið á handbolta fylgist ég með heimsmeistaramótinu í Excel.
Sorglegar fréttir af andláti David Lynch, eins af mínum uppáhalds leikstjórum. Gróf upp gamla grein frá David Foster Wallace sem á að fjalla um frábæra kvikmynd hans, Lost Highway, en stiklar frekar á stóru um feril Lynch og verk hans. Mullholland Drive er líklega uppáhalds David Lynch myndin mín og þegar ég var unglingur fór mikill tími í að reyna að „fatta“ hana. Það var ekki fyrr en á fullorðinsárum að ég áttaði mig á að það var ekkert til að fatta, galdurinn var bara að horfa á helvítis myndina og finna fyrir henni. Hugsa að það sama gildi um flestar myndir hans.
Konráð Guðjónsson, fyrrum ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, hóf nýlega útgáfu á fréttabréfi sem hann kallar Ráðdeildina og fjallar um efnahagsmál í víðu samhengi. Þrjú bréf komin út sem lofa góðu um framhaldið.
Dásamlegt innlit í bókasafn Robert Caro, sem gerði garðinn frægan fyrir að skrifa margra binda ævisögu Lyndon B. Johnson. Hef sjálfur ekki lagt í hana en hafði gagn og gaman af The Power Broker sem fjallar um einn áhrifamesta bjúrókrata Bandaríkjanna, Robert Moses, og Working, sem fjallar um hvernig Caro fer að því að skrifa svona svakalega góðar ævisögur.
(Kári)
Manstu ekki hvað bókin heitir en getur lýst því um hvað hún fjallar? Eða langar þig að lesa bók sem gerist í Sovétríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar og fjallar um njósnara sem hefur unun af óperum en veist ekki hvort slíkt verk hafi verið ritað? Láttu gervigreindina hjálpa þér að finna svarið.
Gaman væri nú ef einhver tæki sig til og sendi manni svona fallega myndskreytt bréf með sniglapósti. Edward Gorey á heiðurinn af þessari hugmyndaauðgi.
Virkilega flott úttekt á jarðlestakerfinu í New York og flæði farþega um undirheimana. Dæmi um lesefni sem nýtir sér stafrænu tæknina á snjallan hátt með alls kyns gagnrænum, myndrænum útfærslum.
Hér eru ýmsar fallegar og skrítnar myndir sem komnar eru úr höfundarétti og því öllum frjálst að hala þeim niður og nota.
Erum við ótrú makanum ef við klæmumst við gervigreind? Kona ein var allavega orðin svo ástfangin af spjallmenni – og eyddi svo miklum tíma á trúnó við spunagreindartólið – að hún fékk nagandi samviskubit gagnvart eiginmanninum.
(Sverrir)
Bækur
Co-Intelligence, Ethan Mollick
Langar þig að lesa aðgengilega bók um spunagreind sem a) útskýrir lítillega sögu gervigreindar, b) fer aðeins ofan í saumana á því hvernig þessi tækni virkar (svo að leikmenn skilji) og c) kennir þér að nota spunagreindartól á greindarlegri hátt en flestir gera? Þá gætirðu lent á verra stað en milli spjaldanna á þessari. Ég nota hana t.d. í kúrsi sem ég kenni í HÍ um sköpun og spunagreind. Höfundurinn heldur enn fremur úti ágætis fréttabréfi um sama efni, One Useful Thing.
Ég er rétt farinn að dýfa tánni í bókina Papyrus: The Invention of Books eftir spænska sagnfræðinginn Irene Vallejo í enskri þýðingu. Fyrir utan það að vera fróðleg þá er hún virkilega fallega skrifuð frásögn af því hvernig fornbókmenntir hafa mótað mannkynssöguna. Svona á að skrifa sagnfræði!
(Kári)
Hlaðvörp og annað
Gítarleikarinn mælski og djúphygli Julian Lage velur eftirlætisplötur sínar á ráfi um plötubúð.
(Sverrir)
Skemmtilegur þáttur af In Our Time á BBC (mæli mikið með þeim) um Plútarkos sagnaritara og Hliðstæðu lífin (Vitae parallelae) hans.
Í nýlegum Leslista sagði ég frá frábærum njósnaþriller eftir fyrrum starfsmann bandarísku leyniþjónustunnar sem ég mæli mikið með. Í ljós kemur að kauði er með stórskemmtilega hlaðvarpsseríu um njósnir sem nefnist The Rest is Classified. Mæli með fyrstu tveimur þáttunum sem fjalla um Operation Ajax, sem snerist um sviðsett valdarán bandarísku og bresku leyniþjónustunnar í Íran. Ótrúlegt að enginn hafi gert kvikmynd um þetta mál!
(Kári)