Leslistinn #97
Nauðug hlátrasköll, Vatíkanið, hryllilegir kettir, Kafka, skógarhögg, hversdagslíf fólks á fyrri öldum, olía og Ragnar Kjartansson
Um Leslistann
Í Leslistanum finnurðu ábendingar um alls kyns skemmtilegt lesefni en sömuleiðis tillögur að hlaðvörpum, tónlist, sjónvarpi og öðru uppbyggilegu og mannbætandi efni.
Höfundar listans eru Kári Finnsson og Sverrir Norland.
Ertu með ábendingu handa Leslistanum? Enga feimni, sendu okkur línu!
Hlekkir
Það er mjög erfitt að átta sig á því hvað Donald Trump er eiginlega að spá sína fyrstu daga og vikur í embætti. Fannst þessi greining setja ákvarðanir hans í gott samhengi. Í henni er litið á stefnu Trump sem menningarstefnu, sem er mögulega það síðasta sem manni dettur í hug við fyrstu sýn.
Voruð þið ekki að velta fyrir ykkur hvað Vatíkaninu finnst um tengsl mannlegrar greindar og gervigreindar? Hélt það einmitt.
Langar ykkur til að geta lesið meira? Hér eru gagnleg ráð til að koma sér í gírinn.
(Kári)
Stundum er erfitt að halda hlátrinum inni.
Árið 2011 gaf Nicholas Carr út bók sem fór víða, The Shallows: What the Internet Is Doing to Our Brains. Mér fannst hún geggjuð þegar ég las hana og síðan þá hefur internetið einungis hakkað heilann í mér ennþá meira og eflaust grillað og stækkað eða kannski smækkað þinn líka. Carr var að senda frá sér nýja bók, Superbloom, sem ég hef þegar pantað og hlakka til – og kvíði fyrir – að lesa. Ágæt grein um hana í Los Angeles Review of Books. Fjallar um hvernig offramboð upplýsinga er að fara með okkur í gröfina.
(Sverrir)
Bækur
Ég dáist að Hildi Knútsdóttur. Við vorum saman í ritlist í Háskólanum á sínum tíma (nánar tiltekið veturinn 1767-68) og frá útskrift hefur hún dælt frá sér fjölbreyttum og margverðlaunuðum verkum. Á síðustu misserum hefur hún laumað út nóvellum á vorin og sú fjórða, Gestir, leit dagsins ljós nú á dögunum. Allt eru þetta hryllingssögur um … ketti. Og fólk auðvitað. Sú fyrsta, Myrkrið á milli stjarnanna, hefur einnig slegið í gegn á ensku og lenti meira að segja á lista The New York Times yfir bestu hrollvekjubækur ársins 2024. Ekki amalegt. Ég hafði gaman af næstu tveimur, Urðarhvarfi og Möndlu, og hin áðurnefnda Gestir er líka grípandi og fljótlesin. Lokahnykkurinn fannst mér kannski ekki alveg jafn kræsilegur og í hinum þremur; til dæmis fannst mér Mandla enda á sérstaklega eftirminnilegan hátt. En ég verð áskrifandi af þessum kattarhorror hennar áfram og hlakka til næstu bókar.
Ég hef auðvitað líka verið áskrifandi að verkum Kafka frá því að ég var unglingur og á verk eftir hann á fjórum tungumálum. (Hversu menningarlegur getur einn fótboltastrákur úr Hlíðunum eiginlega verið án þess að jaðri við lögbrot?) Ástráður Eysteinsson hefur, í samstarfi við Eystein heitinn Þorvaldsson, föður sinn, verið svo alúðlegur að færa okkur þessi verk á íslensku - og það er rétt að minna áskrifendur Leslistans á að það er gaman að lesa Kafka. Hann er fyndinn, spennandi, skrítinn, sker í sálina. Hann er ísöxin á freðið hafið innra með þér. Forlagið hefur laumað í kiljuformi út bæði endurútgáfum og frumútgáfum á þýðingum Ástráðs og Eysteins á síðustu árum: skáldsögunum þremur, Réttarhöldunum, Höllinni og Ameríku; Bréfi til föðurins sem Kafka sendi upprunalega til hins afundna föður síns; loks eru það Umskiptin og aðrar sögur (Hannes Pétursson þýddi Die Verwandlung sem Hamskiptin á sínum tíma og mér finnst það alltaf meira grípandi titill); og nú kemur Byrgið: Sögur, kjarnyrði, brot sem ég er kominn með í bunkann og hlakka til að lesa. Í fyrra voru hundrað ár liðin frá andláti hans og Kafka var minnst víða um heim; til að mynda setti hið ágæta Morgan Library í New York upp sýningu með handskrifuðum frumritum af ýmsum verka hans, til dæmis upprunalegu uppkasti Hamskiptanna. Deborah Eisenberg skrifar hér ágætis grein um þá sýningu og líf Kafka.
Mig langar einnig að minnast á Skógarhögg: Geðshræring eftir hinn austurríska Thomas Bernhard. Ég las hana fyrir mörgum árum á ensku en hef einungis blaðað í íslensku útgáfunni – sem er afar falleg og fylgir sömu hönnun og ensku þýðingarnar á verkum TB – og nú þykist geta fullyrt að Hjálmar Sveinsson kemst vel frá því verki að þýða höfundinn úr þýsku; árið 2005 kom út önnur þýðing eftir Hjálmar á öðru verki sama höfundar, Steinsteypu, og þegar ég dreg eintakið mitt fram úr bókahillu færist vandræðalegur roði út í kinnarnar því að ég hef hripað alls kyns athugasemdir á spássíurnar af ungæðislegum ákafa. (Þessi athugasemd er reyndar ágætt: „Að fara burt í leit að einhverju skárra. En hvað ef allt sem þú finnur er bara enn verra???“) Ég er ekki jafn mikill aðdáandi TB og margir menningarvitar landsins en hef samt alltaf haft gaman af þessum ágenga húmor sem á uppsprettu í sársauka, eymd og flókinni sögu Austurríkis. Ég las æviminningar TB á sínum tíma, Gathering Evidence, á löngu ferðalagi um Nýju-Mexíkó og Texas, og man hvílíkur léttir það var að ljúka við þá frábæru og niðurdrepandi bók. Aldrei aftur, hugsaði ég. Ég keypti hana í bókabúðinni í Marfa og eigandinn, Tim Johnson, tók ljósmynd af mér þegar við höfðum gengið frá kaupunum. „Hvers vegna mynd?“ spurði ég. „Ég tek alltaf ljósmynd af þeim sem kaupa bók eftir Thomas Bernhard,“ sagði Tim. Það er svo sem ekkert verri siður en hver annar.
(Sverrir)
Ég fann í fornbókabúð bókaröð sem ég hef lengi ætlað mér að lesa: Saga einkalífsins, sem á frönsku heitir Historie de la vie privée en ég las í enskri þýðingu sem A History of Private Life. Mér tókst reyndar bara að útvega mér fyrsta og þriðja bindið, sem fjalla um Rómarveldi til forna og svo Endurreisnina. Í stuttu máli sagt fjallar bókin um hvernig daglegt líf fólks var á þessum tíma, hvað fólk borðaði, hvernig það ól upp börnin sín, hvernig hjónalíf þess var, hvernig það vann, hvernig það hagaði frítíma sínum og svo framvegis. Fyrir utan hvað þetta er forvitnilegt þá veitir bókin gott samhengi við alls konar texta frá þessum tíma. Maður skilur betur söguna með því að hafa skilning á því hvernig fólk hagaði einkalífi sínu. Mæli með því að hafa þessa á náttborðinu.
(Kári)
Hlaðvörp og annað
Ég held að ég geti kallað mig aðdáanda Taylor Sheridan, leikstjóra, framleiðanda og handritshöfundar þátta á borð við Yellowstone (elska þá), 1881 og 1923. Ég gleypti allavega í mig nýjasta verk hans, Landman, á dögunum, þætti með Billy Bob Thornton í aðalhlutverki, og því fylgdi bæði hrein nautn og sakbitin sæla. Hér erum við stödd í Texas, í heimi „oil and gas“, og fylgjumst með fólkinu sem hættir lífi og limum svo að við getum flogið heimshorna á milli og notið nútímalífsgæða. Karlarnir eru stereótýpískir karlar og konurnar eru … tja, horfðu bara á þættina.
(Sverrir)
Haraldur Þorleifsson var að byrja með skemmtilegt hlaðvarp þar sem hann býður landsþekktu fólki í göngutúr. Fyrsti göngutúrinn er með myndlistarmanninum Ragnari Kjartanssyni og er virkilega skemmtilegur. Mæli líka með nýrri sýningu Ragnars í i8 rýminu í Marshallhúsinu. Fór með dóttur mína á sýninguna og hún sagði að hún væri mjög leiðinleg en líka skemmtileg. Betri meðmæli er vart hægt að finna!
(Kári)