Leslistinn #98
Gagnlausar mastersgráður, syngjandi apar, Hinir gæfustu lifa af, ráð handa ferðalöngum, athygliskreppa, gotharar og bestu enskumælandi ljóðskáldin
Um Leslistann
Í Leslistanum finnurðu ábendingar um alls kyns skemmtilegt lesefni en sömuleiðis tillögur að hlaðvörpum, tónlist, sjónvarpi og öðru uppbyggilegu og mannbætandi efni. Höfundar listans eru Kári Finnsson og Sverrir Norland.
Ertu með ábendingu handa Leslistanum? Enga feimni, sendu okkur línu!
Útgáfa
Sverrir var að gefa út nýja plötu, „Hinir gæfustu lifa af“. Hún er aðgengileg á öllum helstu veitunum, sjá til dæmis: Spotify / Apple Music / Youtube
Hlekkir
Af hverju er maður líklegri til að sjá gothara í úthverfi frekar en í miðbæ? Frumleg grein um hvað verður um sköpunargáfuna með tilkomu spunagreindarinnar.
Góð og gagnleg ferðaráð frá manni sem hefur ferðast í meira en 50 ár. Hér er eitt gott: „Crash a wedding. You are not a nuisance; you are the celebrity guest! The easiest way to do this is to find the local wedding hall where weddings happen on schedule and approach a wedding party with a request to attend. They will usually feel honored. You can offer the newlyweds a small token gift of cash if you want. You will be obliged to dance. Take photos of them; they will take photos of you. It will make your day and theirs. (I’ve crashed a wedding in most of the countries I have visited.)”
Fallegar hugleiðingar um nýja þýðingu á Ummyndunum Óvíd sem er í vinnslu.
(Kári)
Eru mastersgráður óþarfi og framhaldsnám bara sóun á tíma og peningum?
Væri nýja Dylan-myndin betri ef söngvaskáldið væri rotta eða hlébarði? Robbie Williams er allavega api í nýrri mynd og gagnrýnandi telur það stílbragð hressa upp á hið svolítið útjaskaða biopic-form.
Búðu til þínar eigin reglur, ekki fylgja lífsráðleggingum annarra.
Eru heimspekingar samtímans of huglausir til að lifa raunverulega á heimspekilegan hátt utan kennslustofunnar? Áhugaverð grein um Agnes Callard. Brot úr textanum: „The failure to be sufficiently or dangerously philosophical besets most academic philosophers, she charges, who take off their philosopher hats when they arrive home after teaching their classes, shielding their lives from the kinds of inquiries that might disrupt their comfortable existences. They’re afraid of philosophy, and not actually doing it.“ Þessa New Yorker-grein um Callard las ég í fyrra; hún er líka áhugaverð.
Helen Garner er frábær ástralskur höfundur, algjörlega með sinn eigin stíl. Nú var að koma út safn dagbókarskrifa hennar sem ég hlakka til að lesa.
(Sverrir)
Bækur
Ég gæti skrifað langa grein um Lost Attention eftir Johann Hari, sem kom nýlega út á íslensku sem Horfin athygli. Frábær og víðfeðm bók (og þýðingin prýðileg) sem skoðar athygliskreppu okkar á Vesturlöndum úr nokkrum ólíkum áttum. Skjátæknin og samfélagsmiðlarnir eru sannarlega viðsjárverð en aðrir skaðvaldar eru til dæmis versnandi mataræði, aukin mengun, minni útivist og skortur á hreyfingu. Johann Hari skrifar mjög læsilegan og lifandi stíl, er greinilega fæddur sögumaður og hefur unnið viðamikla rannsóknarvinnu, meðal annars með því að taka ótal frumviðtöl við alls kyns áhugavert fólk. Mæli með lestri.
(Sverrir)
Ég varð mjög hrifinn af ítalska rithöfundinum Dino Buzzati eftir að ég las bókina hans Il deserto dei Tartari í enskri þýðingu undir titlinum The Tartar Steppe, fyrir mörgum tunglum síðan. Þetta er ein af þessum bókum sem maður les nokkrum sinnum yfir lífsleiðina. Stefnan var alltaf sett á að lesa meira en ég lét ekki verða af því fyrr en í nýlegu veikindamóki þegar ég las smásagnasafnið Catastrophe & other stories. Það er erfitt að lýsa öllum sögunum í stuttu máli en ég má til með að mæla sérstaklega með sögunni sem bókin dregur titil sinn af. Tók svo eftir því eftir lesturinn að vinir okkar hjá NYRB Classics hafa gefið út nýja enska þýðingu á smásögum hans. Fögnum því! Nú er bara að vona að einhver ítölskumælandi áskrifandi Leslistans þýði Buzzati yfir á íslensku.
(Kári)
Í eyrunum
Ég hef verið að hlusta á nýju Sharon Van Etten plötuna. Fíla þessa angurværu + svolítið draumkenndu stemningu.
Denzel Washington er ólíkindatól. Klikkaður narsisisti? Djúpvitur spekingur? Ég hálf vorkenndi David Marchese sem ræðir hér við leikarann í The Interview-hlaðvarpi The New York Times. Samt skemmtilegt. Og verður minna óbærilegt eftir því sem á líður.
(Sverrir)
Þremur tímum hefur sjaldan verið jafn vel varið og í þetta frábæra viðtal við ljóðskáldið Dana Gioa. Hér er stiklað á stóru um listina við að skrifa og af hverju ljóðlist skiptir máli.
Mjög skemmtilegt samtal hér um 20 bestu enskumælandi ljóðskáldin. Það skemmtilega við samtalið er að það fer ekki fram milli sérfræðinga á þessu sviði endilega heldur eru það fyrst og fremst áhugamenn sem bera saman bækur sínar og eru ekki alltaf sammála. Mörg skáld þarna sem ég ætla að kynna mér betur og önnur sem ég þyrfti að endurlesa. Mætti gera sambærilegt samtal um bestu íslensku ljóðskáldin.
Gott viðtal við bandaríska myndlistarmanninn Richard Prince, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Bróðir minn var til viðtals í Kastljósinu nýlega um hvernig hann nýtir gervigreind við kennslu.
(Kári.)