Leslistinn #99
Fölsuð listaverk, námskrár, svínakjöt, skorpuföstur, bókasöfn, Murdoch-fjölskyldan, dagbækur, Roberto Bolaño, herramaður í Moskvu og Lady Gaga
Um Leslistann
Í Leslistanum finnurðu ábendingar um alls kyns skemmtilegt lesefni en sömuleiðis tillögur að hlaðvörpum, tónlist, sjónvarpi og öðru uppbyggilegu og mannbætandi efni. Höfundar listans eru Kári Finnsson og Sverrir Norland.
Ertu með ábendingu handa Leslistanum? Enga feimni, sendu okkur línu!
Hlekkir
„Nýtt“ ljóð eftir Robert Frost! Hér er skrifað um málið.
Góðvinkona Leslistans, Sif Sigmarsdóttir, var að fara af stað með nýtt fréttabréf.
Sorglegasta frásögn sem ég hef lesið lengi. Háskólaprófessor í Bandaríkjunum lýsir meðalnemendum sínum.
Sumir vilja meina að hér sé spunagreindin loks að nálgast mannfólkið í skriflegri sköpunargáfu. Ég er ekki sannfærður, þótt þetta sé áhugavert skref.
Þessu tengt þá er hér gott viðtal við Sam Altman, forstjóra OpenAI. Áhugavert svar frá honum þegar hann er spurður um hvað menntaskólanemi ætti að einbeita sér að núna á dögum spunagreindarinnar:
"The obvious tactical thing is just get really good at using AI tools. Like when I was graduating as a senior from high school, the obvious tactical thing was get really good at coding. And this is the new version of that.
The more general one is I think people can cultivate resilience and adaptability and also things like figuring out what other people want and how to be useful for people. And I would go practice that. Like whatever you study, the details of it maybe don’t matter that much. Maybe they never did. It’s like the valuable thing I learned in school is the meta ability to learn, not any specific thing I learned. And so whatever specific thing you’re going to learn, like learn these general skills that seem like they’re going to be important as the world goes through this transition.”
Hvernig er best að spotta fölsuð listaverk?
„Námsskrá“ sett upp fyrir hin ýmsu fög af sérfræðingum. Greinilega komið skammt á veg en gaman að sjá. Væri skemmtilegt að hafa sambærilegt á íslensku.
Af hverju banna sumir menningarheimar neyslu svínakjöts?
15 falleg bókasöfn um allan heim. Skrítið að bókasafnið í Kringlunni er ekki þar á meðal.
(Kári)
Spurningin sem leitað hefur á huga okkar allra er auðvitað: Hrista skorpuföstur af manni aukakílóin?
Væri heimurinn aðeins bærilegri ef við hönnuðum öll okkar eigin sérviskulegu vefsíður?
Tony er Breti sem býr í Ástralíu og skrifar mikið um bækur á sérstöku bókabloggi.
Löng grein um Murdoch-fjölskylduna þar sem einn úr fjölskyldunni, James Murdoch, ræðir hispurslaust við blaðamanninn. Mjög áhugaverð lesning - ekki síst fyrir aðdáendur Succession-þáttanna.
(Sverrir)
Bækur
Uppáhaldshöfundurinn minn er – held ég að óhætt sé að fullyrða – Roberto Bolaño. Fyrsta bókin sem ég las eftir hann, smásagnasafnið Last Evenings on Earth, er enn eftirlætisbókin mín eftir hann. (Ég les því miður ekki spænsku svo að þetta er mestallt á ensku hjá mér.) Ég endurnýjaði kynnin við Síðustu kvöldin á dögunum, í nýrri heildarútgáfu smásagna hans sem kom út nýverið og ég keypti í Skáldu. Falleg bók og ágætis inngangsreitur í verk síleska snillingsins, fyrir þá sem treysta sér ekki beint í 2666 eða The Savage Detectives. Þessi doðrantur, sem geymir smásagnasöfnin hans þrjú plús heimilislausar smásögur sem komu út í kjölfar andláts hans, verður án vafa uppáhaldsbók hjá mér.
Hver er galdurinn í sagnagerð Bolaños? Ég ætla ekki að skrifa langa ritgerð um það hér - en hluti sjarmans er svona gamaldags „Sestu niður hér hjá mér við varðeldinn því nú ætla ég að segja þér sögu“-orka, plús viss fjarlægð sögumanns við efnið; í smásögunum er til að mynda frekar sjaldgæft að Bolaño skrifi senur, oftast súmmerar hann frekar upp atvik í stuttu máli, og útkoman er því ljóðræn, dularfull, opin til túlkunar. Þetta er áhugavert því að kennarar í skapandi skrifum samtímans predika einmitt „Sýndu, segðu ekki“-regluna (show, don’t tell), sem mér hefur alltaf fundist vera hálfgert bull. Bolaño sannar að ef maður hefur frá einhverju áhugaverðu að segja - til að mynda góða sögu að segja – þá sé bara um að gera að segja söguna. En þetta var útúrdúr! Lesið Bolaño.
Hin bókin sem ég hef verið að lesa er líka doðrantur – úrval úr dagbókum ástralska rithöfundarins Helen Garner. Dagbókarskrif hafa löngum heillað mig; þetta hráa, persónulega og spontant tjáningarform, sem oft er líka vinnustofa rithöfundarins. Ein stór uppáhaldsbók, Le Mausolée des amants, Journal 1976-1991, eftir hinn franska Hervé Guibert, er einmitt af þeim toga; aðrar sem ég mæli með eru dagbækur Susan Sontag og Patriciu Highsmith. Skemmst frá því að segja að Helen Garner nýtur sín einna best á þessu formi - enda útgefnar bækur hennar, meðal annars skáldsögur, byggðar á dagbókunum - og mig grunar að þessi lestur muni opna fyrir mér aðrar bækur hennar, sem ég hef fram til þessa dáðst að en ekki sogast inn í. Mæli mikið með, einkum fyrir þá sem skrifa sjálfir.
(Sverrir)
Las nýlega bókina A Gentleman in Moscow eftir Amor Towles og hafði gaman af. Towles er óþolandi týpa, hefur átt farsælan feril í fjárfestingabankastarfsemi og datt í hug á efri árum að gerast rithöfundur. Svo er hann bara ógeðslega góður í því líka. Hér er ágætt viðtal við hann þar sem hann fjallar fyrst og fremst um listina að skrifa. Sagan fjallar um rússneskan aðalsmann sem er sendur í hálfgerða útlegð á fínu hóteli í Moskvu á árdögum byltingarinnar. Við fylgjumst svo með honum og fólkinu sem starfar og dvelur á hótelinu og þeim ævintýrum sem hann lendir í á leiðinni. Tók eftir því að sjónvarpsþættir hafa verið gerðir eftir bókinni með Ewan McGregor í aðalhlutverki. Hef ekki séð þá en þeir eru örugglega skemmtilegir.
Las fyrir einhverju síðan bókina Why Greatness Cannot Be Planned og má til með að segja sérstaklega frá henni á þessum vettvangi þar sem hún situr mikið í mér. Hana er hægt að sækja ókeypis rafrænt hérna. Bókin fjallar um hvernig ekki er hægt að ná fram metnaðarfullum árangri með því að setja sér markmið. Markmið eru gagnleg fyrir smærri verkefni - ná sölumarkmiði fyrir næsta ársfjórðung, léttast um 5 kg o.s.frv. Þegar kemur að stærri verkefnum - lækna krabbamein, búa til nýjan orkugjafa og margt fleira í þeim dúr, þá er markmiðasetning ekki bara ógagnleg heldur beinlínis skaðleg.
Höfundarnir eru sérfræðingar á sviði gervigreindar og nýta rannsóknir sínar á því sviði til að rökstyðja mál sitt. Hluti af rannsóknum þeirra fólst í því að útbúa myndgreiningartól á netinu sem styðst við gervigreind og nefnist Picbreeder. Þar gátu einstaklingar séð nokkrar óhlutbundnar myndir og valið þær sem þeim leist best á. Með tíð og tíma gátu þeir „ræktað“ myndir af bílum, fiðrildum, hauskúpum o.fl., bara út frá því sem þeim fannst áhugaverðast hverju sinni. Það sem vakti athygli bókarhöfunda var að ef einhver setti sér markmið um að búa til ákveðna mynd, t.d. bíl, þá mistókst það í hvert skipti. Það var aðeins með að setja sér engin ákveðin markmið sem hægt væri að búa til merkilegar myndir.
Að þeirra mati á þetta dæmi við um allt milli himins og jarðar og að heimurinn í dag er of markmiðadrifinn til að hægt sé að á markverðum árangri í vísindum, tækni, menntun o.fl. Lausnin er ekki fólgin í því að hætta alfarið að setja sér markmið heldur á að nýta þau þar sem þau eiga best við. Þegar kemur að stórum metnaðarfullum verkefnum eigum við að nálgast þau eins og fjársjóðsleit. Það þýðir að við eigum að vinna að því að finna það sem vekur áhuga okkar hverju sinni og láta uppgötvanir okkar kvíslast eins víða og mögulegt er. Því fleiri möguleikar sem opnast því lengra nær verkefnið.
Höfundarnir taka dæmi um gerð tölvunnar. Ef klárustu vísindamenn heims hefðu tekið höndum saman um að búa til tölvu árið 1700 hefði verkefnið verið ómögulegt. Þeim hefðu einfaldlega aldrei dottið í hug öll þau skref (e. stepping stones) sem nauðsynleg væru til að klára verkefnið. Það er líka ekki augljóst að þessi skref leiði yfirhöfuð til tölvunnar. Gott dæmi er gerð lofttæmisröra (e. vacuum tubes) sem voru alls ekki þróuð með tölvuna í huga en var nauðsynlegt skref til að gera fyrstu tölvurnar á 20. öldinni. Annars gæti ég rausað um þessa bók í margar síður til viðbótar þannig að ég hvet bara sem flesta til að lesa!
(Kári)
Í eyrunum
The Interview-spjallið við Lady Gaga fannst mér ansi einlægt og flott og okkar kona mælsk, yfirveguð og áhugaverð. Ég hafði aldrei hlustað neitt á hana umfram það sem útvarpið og skemmtisstaðir þröngva upp á mig en langar nú að bæta úr því.
(Sverrir)
Mjög djúpt og gott viðtal við Joseph Heinrich, sem er prófessor í þróunarlíffræði og hefur skrifað bækur um þróun mannsins í mjög víðu samhengi. Mæli líka sérstaklega mikið með hlaðvarpþáttaröðinni sjálfri sem stýrt er af ungum náunga, Dwarkesh Patel, sem vann sig hratt upp og tekur nú viðtöl við stórstjörnur í tækni- og fræðiheiminum.
Japanskur eftirlaunaþegi gerir málverk í Excel. Guð blessi internetið.
(Kári)
Lag vikunnar
„Tender Defender“ með Vulfpeck og Theo Katzman.
(Sverrir)
Nýleg upptaka af Tom Waits, vini okkar, að spila lag fyrir ítalskt sjónvarp.
(Kári)
Talandi um fölsuð listaverk: Spennandi námskeið í Listasafninu https://www.listasafn.is/laera/afhjupun-blekkingar/